Hóflegum hagvexti spáð á næstu árum

mbl.is/KG

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins bendir til aukins jafnvægis í efnahagsmálum á næstu árum. Fram kom í máli fjármálaráðherra í dag að því sé spáð að það muni hægja tímabundið á hagvexti og að hann verði hóflegur á næstu árum samhliða því að dragi úr verðbólgu og viðskiptahalla.

Langtímaáætlun í í ríkisfjármálum bendir til að ríkissjóður verði rekinn með afgangi á næstu árum. Ráðherra benti á að ef rétt verði haldið á málum verði því svigrúm til þess að fylgja eftir áherslum ríkisstjórnarinnar og halda áfram að lækka skatta á næstu árum og bæta velferðarþjónustuna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Við sjáum núna fyrir okkur að það verði meira jafnvægi í efnahagsmálunum á næsta ári heldur en við höfum upplifað að segja má síðustu tvö þrjú árin, þar sem hefur verið gríðarlega mikill hagvöxtur - meiri hagvöxtur en við höfum gert ráð fyrir. Við gerum ráð fyrir því að hagvöxtur á næsta ári verði 1,2% á móti 0,7% sem gert er ráð fyrir á þessu ári. Hækkun verðlags, eða verðbólga, milli ára verður 3,3%. Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna verði 1%. Atvinnuleysi hækki og verði 2,9%. Fari úr því að vera að meðaltali 1,1% á þessu ári,“ sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

mbl.is/KG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert