Skipulagsstofnun fellst á álver Alcoa með skilyrðum

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði og telur að fyrirhugað álver með allt að 346.000 tonna ársframleiðslu, eins og það er kynnt í matsskýrslu, sé viðunandi. Telur stofnunin, að þegar ákveðin skilyrði hafa verið uppfyllt muni álverið ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á loftgæði, ásýnd, hljóðvist og menningarminjar.

Skipulagsstofnun telur að báðir kostir sem til greina koma við hreinsun útblásturs, þ.e. þurrhreinsun eingöngu eða þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun, séu fullnægjandi til að halda loftmengun neðan tilgreindra marka.

Skilyrðin, sem Skipulagsstofnun setur eru, að ekki verði heimil föst búseta innan þynningarsvæðis álvers Alcoa Fjarðaál. Einnig þurfi sérstaklega að huga að því við frágang, að draga úr sjónrænum áhrifum vegna framkvæmdanna. Þá setur Skipulagsstofnun það skilyrði, að Alcoa Fjarðaál standi fyrir reglubundnum mælingum á loftmengun, þ.e. brennisteinsdíoxíðs, flúors og svifryks í lofti innan og utan þynningarsvæðis.

Nánari ákvarðanir um vöktun áhrifa varðandi mælingar í lofti, vatni, sjó, seti og lífverum, staðsetningu og fjölda mælistaða, tíðni mælinga og annað fyrirkomulag ásamt mótvægisaðgerðum skulu vera í samráði við Umhverfisstofnun.

Forsaga málsins er sú, að álver við Reyðarfjörð á vegum Norsk-Hydro, sætti mati á umhverfisáhrifum árin 1999 og 2001 en ekki kom til þess að verksmiðjan yrði byggð. Árið 2002 tók Alcoa yfir verkefnið og tilkynnti Skipulagsstofnun um breytt áform um byggingu álvers í Reyðarfirði til ákvörðunar um matsskyldu. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í desember árið 2002, að þær breytingar væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Þessi ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra sem úrskurðaði í apríl 2003, að ákvörðun Skipulagsstofnunar skyldi standa óbreytt. Úrskurður umhverfisráðherra var kærður til Héraðsdóms Reykjavíkur sem ómerkti úrskurðinn í janúar 2005. Dómi Héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í júní 2005 og var niðurstaðan því sú, að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Byggingu álversins var haldið áfram þrátt fyrir dóm Hæstaréttar en Alcoa Fjarðaál lét vinna frummatsskýrslu og síðan matsskýrslu um álversbygginguna.

Álit Skipulagsstofnunar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert