Margskonar framleiðsla verður í álveri Alcoa Fjarðaáls

Frá framkvæmdum við álverið í Reyðarfirði.
Frá framkvæmdum við álverið í Reyðarfirði. mbl.is/Steinunn

Gert er ráð fyrir að í álveri Alcoa Fjarðaáls í Fjarðabyggð verði í senn framleitt ál fyrir almenna iðnframleiðslu, hágæðaál og sérstakar álblöndur sem notaðar eru í bílaiðnaði. Einnig verða þar steyptir álvírar sem m.a. eru nýttir við framleiðslu háspennustrengja.

Fram kemur í tilkynningu að nýlega hafi verið tekin ákvörðun um hvernig framleiðsla álversins muni skiptast milli ólíkra vöruflokka en ál frá Alcoa Fjarðaáli verður flutt út á markaði í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Álverið á að taka til starfa árið 2007.

Fram kemur, að búnaður og framleiðsluferli álversins verða hönnuð með það fyrir augum að auðvelt verði að breyta framleiðslunni og laga hana að þeim aðstæðum sem ríkja á mörkuðum hverju sinni. Auk álhleifa og álbarra, sem eru hefðbundin meginframleiðsluvara álvera, muni Alcoa Fjarðaál einnig geta framleitt allt að 90 þúsund tonnum af álvír á ári í fullkominni vírsteypu sem verður sú fyrsta hér á landi.

Áformað er að álver Alcoa Fjarðaáls geti árlega framleitt allt að 346 þúsund tonnum af áli. Alls munu tæplega 400 manns starfa hjá fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert