Fjórar tillögur að hönnun álvers í Reyðarfirði bárust

Fjórar tillögur bárust í hönnunarsamkeppni sem Alcoa á Íslandi og Bechtel/HRV efndu til meðal arkitekta um hönnun á fyrirhuguðu álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði. Frestur til að skila inn tillögum í keppnina rann út á hádegi í dag.

Tillögur bárust frá eftirtöldum aðilum sem áður höfðu verið valdir í forvali: Arkitektastofunni OÖ ehf. og Suðaustanátta landslagsarkitektúr, ATL Design Group sem Arkís ehf, THG ehf. og Landark ehf. mynda, TARK Teiknistofan ehf., Batteríið ehf. og Landslag ehf. og loks frá hópi sem samanstendur af VA-arkitektum ehf., Arkitektur.is, Landmótun ehf. og Holm & Grut Architects.

Sá aðili sem vinnur keppnina mun taka að sér að hanna útlit, umhverfi og innra rými álversins. Arkitektafyrirtækin munu kynna tillögur sínar fyrir sérstakri valnefnd í næstu viku. Valnefndin samanstendur af fulltrúum frá Alcoa á Íslandi, Bechtel/HRV, Fjarðabyggð og ráðgjöfum Alcoa frá Carnegie Mellon háskólanum.

Stefnt er að því að tilkynnt verði um val á sigurtillögu síðari hluta janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert