Jarðvegsrannsóknir að hefjast á byggingarstað álvers í Reyðarfirði

Jarðvegsrannsóknir eru nú að hefjast á vegum alþjóðlega verktakafyrirtækisins Bechtel á byggingarstað nýs álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði. Um er að ræða athuganir á berggrunni og jarðvegi vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda sem hefjast munu á seinni hluta ársins 2004 eða í byrjun árs 2005. Reiknað er með að þessi undirbúningsvinna muni taka nokkrar vikur. Álver á að taka til starfa vorið 2007.

Fram kemur í tilkynningu frá Bechtel að rannsóknirnar felist m.a. í margvíslegum borunum, uppgrefti og skýrslugerð. Lögð verði mikil áhersla á að tryggja öryggi starfsmanna og íbúa á svæðinu í tengslum við þessar athuganir. Í því skyni verði óviðkomandi meinaður aðgangur að svæðinu meðan á verkinu stendur.

Fyrirtækið segir, að sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja að hugsanlegar fornminjar muni ekki verða fyrir röskun af völdum athugananna. Sérstakur fornleifahópur hafi þegar girt af nokkur svæði í grennd við fyrirhugaðan byggingarstað og verða ekki leyfðar neinar framkvæmdir á þessum svæðum.

Efnt var til lokaðs útboðs og var fyrirtækið Hönnun hf. valið úr hópi nokkurra íslenskra fyrirtækja til að framkvæma umræddar athuganir fyrir Bechtel. Valið byggðist á því að tilboð Hönnunar var hið lægsta sem uppfyllti jafnframt öll skilyrði sem sett voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert