Forstjóri Alcoa segir stríð ekki stöðva áform Alcoa á Íslandi

Alain J.P. Belda, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki sjá neitt í stöðunni sem stöðvaði úr þessu þau áform fyrirtækisins að reisa álver hér á landi, ekki einu sinni stríð í Írak ef það skylli á, en skrifað var undir samninga um álverið á laugardag að viðstöddu fjölmenni í íþróttahúsinu á Reyðarfirði.

"Við reisum álver yfirleitt með því hugarfari að þau endist í allt að 50 ár og við rekum nokkrar verksmiðjur sem hafa verið starfandi í meira en 90 ár. Órói í stjórnmálum og efnahagslífi kemur og fer en við ætlum okkur að vera hér á Íslandi," sagði Belda og benti á að Alcoa hefði á sínum tíma reist álver í Súrínam og Brasilíu í miðjum byltingum og stjórnmálaóreiðu í þeim löndum.

Álver Alcoa, Fjarðaál, verður reist í einum áfanga með framleiðslugetu upp á 322 þúsund tonn á ári. Áætlaður kostnaður við byggingu þess er um 90 milljarðar króna, eða eins og Belda benti á í ræðu sinni við undirskriftina að kostnaður væri um milljón dollarar á dag næstu fjögur árin. Álverið mun fá raforku frá Kárahnjúkavirkjun og hefja framleiðslu árið 2007. Um 450 manns munu fá vinnu við álverið og 300 önnur störf skapast á Austurlandi.

Tæpt ár er liðið síðan viðræður hófust við Alcoa eftir að Norsk Hydro hafði bakkað út úr áformum sínum um álver í Reyðarfirði. Gengu viðræðurnar fljótt og vel fyrir sig, enda sagðist Belda hafa fundið strax góðan samstarfsvilja íslenskra stjórnvalda og heimamanna á Austfjörðum. Tólf mánaða samningaferli væri ekki svo slæm útkoma í jafnstóru verkefni.

Höfðum lengi augastað á Íslandi

Aðspurður hvort Alcoa hefði fjárfest hér, hefði ekki legið fyrir sá undirbúningur sem eigendur Reyðaráls hefðu innt af hendi, sagði Belda svo vera, með staðfestu í röddinni. Fyrirtækið hefði haft augastað á Íslandi um langan tíma, m.a. vegna eignaraðildar sinnar í Elkem, stærsta eiganda Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Fyrir þá sök hefði Alcoa verið reiðubúið til viðræðna við stjórnvöld með jafnsnöggum hætti og raun varð á.

Belda sagði það eðlilegt að sumir væru andsnúnir jafnstórum verkefnum og álver og Kárahnjúkavirkjun væru. Fyrirtækið myndi leggja metnað sinn í að mæta kröfum sem flestra í umhverfismálum en hann sagðist finna fyrir miklum stuðningi Austfirðinga og stjórnvalda. Belda sagðist sem stjórnarmaður í Citibank þekkja vel til þess þrýstings sem umhverfisverndarsamtök beittu fjármálastofnanir vegna lánsbeiðna til margs konar stóriðju, en eins og fram kemur komið í Morgunblaðinu hefur slíkum þrýstingi verið beitt vegna Kárahnjúkavirkjunar. "Það er til fólk sem er á móti framförum en til allrar hamingju vex umheimurinn og fólk gerir kröfur um betra líf. Okkar verkefni er að finna gott jafnvægi þarna á milli," sagði Belda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert