Samningar um Fjarðaál verða undirritaðir á morgun

Undirbúningur fyrir framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun er kominn vel á veg …
Undirbúningur fyrir framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun er kominn vel á veg en virkjunin er forsenda þess að álver í Reyðarfirði rísi. mbl.is/RAX

Iðnaðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið, álfyrirtækið Alcoa, Landsvirkjun og Fjarðabyggð hafa sent frá sér tilkynningu um að á morgun verði skrifað undir samninga um byggingu 322.000 tonna álvers Alcoa í Reyðarfirði. Athöfnin fer fram kl. 14 í íþróttahúsi Reyðarfjarðar. Undir samningana rita Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Alain J.P. Belda, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Michael Baltzell, formaður samninganefndar Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Áætlaður byggingakostnaður álversins er um 84 milljarðar króna og byggingarkostnaður Kárahnjúkavirkjunar um 95 milljarðar króna. Alls munu um 6300 ársverk skapast á meðan á framkvæmdum stendur, þar af 2300 við byggingu álversins og um 4000 við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun eru þegar hafnar og framkvæmdir vegna byggingar álversins munu hefjast haustið 2004. Álverið mun hefja framleiðslu fyrri hluta árs 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert