Lög um álver í Reyðarfirði samþykkt á Alþingi

Alþingi samþykkti heimild til iðnaðarráðherra til að semja um byggingu …
Alþingi samþykkti heimild til iðnaðarráðherra til að semja um byggingu álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði.

Alþingi samþykkti í dag lög um heimild til iðnaðarráðherra um að gera samninga um byggingu og rekstur álvers í Reyðarfirði með 41 atkvæði gegn 9 en einn greiddi ekki atkvæði. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, tveir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu en þingmaður Frjálslynda flokksins sat hjá. Allir viðstaddir þingmenn Framsóknarflokks greiddu atkvæði með frumvarpinu. Tillaga frá Steingrími J. Sigfússyni formanni VG um þjóðaratkvæðagreiðslu um málið var áður felld með 35 atkvæðum gegn 6 en 10 greiddu ekki atkvæði.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði við atkvæðagreiðsluna að þetta væri stór dagur í íslenskri atvinnusögu. Steingrímur J. Sigfússon sagðist hins vegar ekki öfunda þá þingmenn sem bæru ábyrgð á þessari samþykkt af þeim sess sem þeir hlytu á spjöldum sögunnar.

Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi.

Við atkvæðagreiðsluna sagði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra að ef sama álver og til stendur að reisa í Reyðarfirði, væri drifið með kolum, félli til meira af gróðurhúsalofttegundum en kæmu frá öllum Íslendingum. Með því að byggja álver sem nýtti endurnýjanlega orku væri verið að spara meira en Íslendingar losuðu í framtíðinni fyrir okkar kynslóðir.

Arnbjörg Sveinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi sagði við atkvæðagreiðsluna að þetta væri góður dagur fyrir Reyðfirðinga, góður dagur fyrir Austfirðinga og góður dagur fyrir Íslendinga. Sagðist Arnbjörg greiða atkvæði með frumvarpinu með gleði.

Bryndís Hlöðversdóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði þingmenn flokksins utan þær Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, styddu frumvarpið og teldu að álverið í Reyðarfirði myndi stuðla að auknum hagvexti og atvinnuppbyggingu. Þá hefði verið tekið eins og kostur væri tillit til umhverfisverndar.

Katrín Fjeldsted, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist telja að bygging álvers í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun, valdi ómældum spjöllum á viðkvæmri náttúru Ísland. Í Reyðarfirði væri logn helminginn af tímanum og við slíka staðhætti gæti mengun valdið lungnaveiku fólki, öldruðum og smábörnum heilsutjóni. Sagðist hún vilja leggja áherslu á fegurðina, heilsuna, umhverfið og hugvitið og greiddi því atkvæði gegn frumvarpinu.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, sagði að þjóð og þing hefðu staðið frammi fyrir afarkostum í málinu. Ekki hefði verið gerð tilraun til að meta verðgildi náttúrunnar, allt væri falt og afhent erlendum auðhring á silfurfati. Ákvörðun um að reisa álver í Reyðarfirði, sem fengi orku á þriðja heims verði, bæri fyrir borð skyldur ríkisstjórnarinnar til að jafna rétt karla og kvenna í atvinnumálum. Verið væri að skapa einhæfan karlavinnustað þar sem konum væri gert að hirða molana af borðum karlanna í svonefndum afleiddum störfum.

Pétur Bjarnason, varaþingmaður Frjálslynda flokksins, sagðist vera hlynntur áformum um álverksmiðju í Reyðarfirði en þar sem flokkurinn hefði ekki fulltrúa í iðnaðarnefnd þingsins og því ekki getað lagt mat á upplýsingar sem þar komu fram um málið, myndi hann sitja hjá í atkvæðagreiðslunni.

Talsverður fjöldi fólks var á áhorfendapöllum Alþingis og lýstu þeir áliti sínu á málflutningi þingmanna með því að klappa fyrir þeim sem lýstu andstöðu við frumvarpið eða púa á þá sem lýstu stuðningi. Þá komu Náttúruvinir saman á Austurvelli í dag fyrir fund Alþingis til að sýna andstöðu við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þegar frumvarpið hafði verið samþykkt var frumfluttur sorgarmars eftir Björgvin Gíslason sem er tileinkaður landinu sem hverfur ef af Kárahnjúkavirkjun verður.

Frumvarpið í heild

Hópur fólks mótmælti utan við Alþingishúsið í dag.
Hópur fólks mótmælti utan við Alþingishúsið í dag.
Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert