Álver í Reyðarfirði: ESA óskar eftir frekari upplýsingum

Eftirlitsstofnun EFTA, eða ESA, óskaði á föstudag eftir frekari upplýsingum frá stjórnvöldum vegna opinberra styrkja og ívilnana ríkis og sveitarfélaga við álver Alcoa í Reyðarfirði.

Von var á umsögn stofnunarinnar um þetta leyti en að sögn Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra er ljóst að það getur tafist um nokkrar vikur. Hún segist ekki trúa því að þetta geti frestað undirritun endanlegra samninga við Alcoa, sem ráðgert hefur verið að fari fram í fyrri hluta marsmánaðar, en spurningarnar frá ESA komi óneitanlega seint fram. Embættismenn í ráðuneytum iðnaðar og fjármála hafa um helgina unnið hörðum höndum við að safna upplýsingunum þannig að hægt verði að skila þeim til ESA á næstu dögum.

Samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins þarf að tilkynna alla opinbera styrki af þessu tagi frá ríki og sveitarfélögum til ESA, sem síðan skilar umsögn sinni. Fjárfestingarsamningur ríkisins við Alcoa bíður undirritunar auk þess sem semja þurfti við sveitarfélagið Fjarðabyggð um hafnar- og lóðarsamning vegna álversins. Í báðum tilvikum leggur hið opinbera fram ákveðinn stuðning og ívilnun þar sem ýmist er veittur afsláttur af gjöldum eða þau aflögð.

Engin hættumerki

Að sögn Valgerðar var verkefnið tilkynnt formlega til ESA um miðjan desember sl. en tveimur vikum áður höfðu embættismenn gert grein fyrir því í heimsókn sinni til Brussel.

"Unnið hefur verið í málinu alla helgina og við vonumst til að geta sent svörin á morgun [í dag] eða þriðjudag. Þetta eru ekki það flóknar spurningar og við sjáum engin hættumerki í þeim," segir Valgerður og telur aðallega um að ræða spurningar um tæknilegar útfærslur stuðningsins.

Valgerður segir innihaldi frumvarpsins um álver Alcoa, sem nú er til meðferðar á Alþingi, svipa mjög til frumvarpsins um álver Norðuráls. ESA hafi skilað jákvæðri umsögn vegna þess á sínum tíma og reiknað sé með svipaðri niðurstöðu núna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert