Stefnt að undirritun samninga við Alcoa í mars

Fyrir stjórnarfundi Landsvirkjunar í dag liggur tillaga um að samþykktur verði samningur við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo um gerð stíflu og aðrennslisganga Kárahnjúkavirkjunar. Stefnt er að því að veita Ítölunum verkið með svonefndu veitingarbréfi í næstu viku.

Fyrirtækið átti sem kunnugt er lægsta tilboð í verkið, eða fyrir um 44 milljarða króna. Að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, er reiknað með að Impregilo hefjist handa við Kárahnjúka í lok mars eða fyrri hluta aprílmánaðar.

Undirritun samnings við Impregilo fer hins vegar ekki fram fyrr en skrifað hefur verið undir orkusamning við Alcoa vegna álversins í Reyðarfirði. Sú undirritun er svo háð því hvenær Alþingi afgreiðir frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um heilmild til fjárfestingarsamninga við Alcoa. Stefnir Valgerður að því að fá heimild Alþingis í þessum mánuði. Þá er einnig beðið eftir áliti frá Eftirlitsstofnun EFTA varðandi ríkisstyrk við framkvæmdirnar.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er svo stefnt að því að skrifa undir alla samninga við Alcoa fyrri hluta marsmánaðar, þegar tæpt ár verður liðið frá því að fyrst var rætt við fyrirtækið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert