Mælt fyrir frumvarpi um álver í Reyðarfirði

Mótmæli voru fyrir utan Alþingishúsið í dag í tilefni af …
Mótmæli voru fyrir utan Alþingishúsið í dag í tilefni af því að þar fer fram fyrsta umræða í dag um heimildarlög fyrir álver í Reyðarfirði. Lögðu menn m.a. vettlinga að Alþingishúsinu til að hvetja þá sem vettlingi geti valdið til að mótmæla stóriðjuáformunum. mbl.is/Júlíus

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mælti í dag á Alþingi fyrir frumvarpi um álver í Reyðarfirði en samkvæmt frumvarpinu fær ráðherra heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf., Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi. Búist er við langri umræðu um málið í dag en Vinstrihreyfingin-grænt framboð fór fram á að ræðutíminn yrði tvöfaldur.

Valgerður sagði m.a. að það væri stór stund fyrir þá fjölmörgu sem að þessu verkefni hafa komið að horfast í augu við þá staðreynd að búið sé að taka ákvörðun um stóriðju á Austurlandi. Aldrei áður hafi verið ráðist í jafn mikla atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, en slík uppbygging hafi einkum farið fram á Suðvesturhorninu. Sagði Valgerður að jökulsárnar norðvestan Vatnajökuls hefðu að geyma mikla orku og nú yrðu þessi vatnsföll nýtt Austfirðingum og öðrum landsmönnum til hagsbóta. Á næstu árum myndi uppbygging einkenna Austfirði og þar yrði ekki lengur um íbúaflótta og stöðnun að ræða.

Valgerður sagði það vera vonbrigði að heyra andstæðinga framkvæmdanna lýsa því yfir að ekki væri sátt um málið eftir að þessi niðurstaða væri fengin. Valgerður sagði að þótt varla hefði nokkur framkvæmd verið eins vel undirbúin með tilliti til umhverfissjónarmiða og þessi væri ekkert við því að segja að fólk væri andvígt framkvæmdunum af umhverfissjónarmiðum en það væri óviðunandi að reynt sé að gera efnahagslegar forsendur framkvæmdanna tortryggilegar. Fyrir því væri enginn fótur.

Þá kom fram í máli Valgerðar að eftir að álver Alcoa verður tekið til starfa yrði útflutningsverðmæti áls um 80 milljarðar á ári. Til samanburðar væri útflutningsverðmæti sjávarafurða um 130 milljarða. Þá hefðu byggst upp hér á landi fyrirtæki og þekking í þjónustu við áliðnað og þessi fyrirtæki væru að selja tæknibúnað í álver um allan heim. Sagðist Valgerður þess viss að þessi iðnaður myndi vaxa og ekki væri ólíklegt að möguleikar Íslendinga á að fá hingað úrvinnslufyrirtæki í áliðnaði aukist.

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG sagði í andsvari að ráðherrann talaði eins og hún viti ekki um þann djúpstæða ágreining sem væri um málið, þar á meðal á Austurlandi. Ögmundur Jónasson þingmaður VG sagði að á næstu 10 árum þyrfti að skapa 15 þúsund störf í landinu en áætlað væri að álver í Reyðarfirði skapaði 750 ný störf. Hann spurði hvað Valgerður segði um þau varnaðarorð sem komið hefðu frá sérfræðingum um að aðrar atvinnugreinar muni eiga erfitt uppdráttar meðan á framkvæmdatíma álvers og Kárahnjúkavirkjunar stendur.

Þá sagði Ögmundur að ekki væri hægt að jafna saman útflutningsverðmæti sjávarafurða og áls, því í þessu tilviki kæmi erlent risafyrirtæki til með að fá hagnaðinn til sín. Spurði Ögmundur hvað kæmi til með að sitja eftir í íslensku efnahagslífi eftir að hagnaðurinn, vextirnir og afborganirnar hefðu verið fluttar úr landi.

Valgerður sagði að mörg þau störf sem skapast hefðu hér á landi á síðasta áratug hefðu komið til vegna áliðnaðar. Benti Valgerður á að Samtök atvinnulífsins styddu framkvæmdina og virtust ekki óttast að annar atvinnurekstur myndi bíða skaða af. Þá sagði Valgerður að hagnaður af álverinu yrði skattlagður hér á landi.

Lögreglan stóð vörð við Alþingishúsið þar sem hópur fólks mótmælti …
Lögreglan stóð vörð við Alþingishúsið þar sem hópur fólks mótmælti Kárahnjúkavirkjun. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert