Tveir 80 metra háir skorsteinar verða á álverinu í Reyðarfirði

Frá fundinum á Reyðarfirði í gær þar sem starfsmenn Umhverfisstofnunar …
Frá fundinum á Reyðarfirði í gær þar sem starfsmenn Umhverfisstofnunar kynntu útblásturmengun fyrirhugaðs álvers Alcoa. mbl.is/Helgi Garðarsson

Tveir 80 metra háir skorsteinar verða við fyrirhugað álver Alcoa í Reyðarfirði til að lágmarka loftmengun í nágrenni verksmiðjunnar. Ekki verður svonefndur vothreinsibúnaður eins og gert var ráð fyrir í verksmiðjunni sem Norsk Hydro ætlaði að byggja. Þór Tómasson, verkfræðingur og fagstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að loftmengunin frá álverinu verði undir þeim viðmiðunarmörkum sem gefin hafa verið. Reiknað er með að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir verksmiðjuna um miðjan mars.

Eitt af markmiðum Alcoa er að hafa ekkert frárennsli frá verksmiðjunni út í sjó, heldur fari mengunin frá verksmiðjunni út í andrúmsloftið. Þór Tómasson segir, að Alcoa hafi látið reikna út fyrir sig hvað þyrfti háa skorsteina fyrir gefin styrk af brennisteini í útblæstri. Það hafi komið fram, að 50 metra háir skorsteinar væru ekki nægilega háir, en 80 metra háir skorsteinar uppfylla þessar kröfur um útblástur.

Þór segir, að þetta fyrirkomulag tryggi sambærileg loftgæði með tilliti til brennisteinsmengunar á svæðinu og það hefði gert með vothreinsibúnaði. Eini munurinn væri sá, að úrgangsefnum væri dælt út í andrúmsloftið í stað þess að fara til sjávar. Hann sagði að vissulega myndi loftmengun í Reyðarfirði aukast, enda um stóra verksmiðju að ræða. Hann sagði að mengunin ætti ekki fara upp fyrir viðmiðunarmörk.

Kynningarfundur Umhverfisstofnunnar vegna starfsleyfis verksmiðjunnar fór fram á Reyðarfirði í gærkvöldi. Þór sagði að fólk hefði nú frest til 18. febrúar til að gera athugasemdir til Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðara umhverfismengunar frá verksmiðjunni. Gögn þess efnis liggja frammi á bæjarskrifstofum fyrir austan og eins er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun og pantað öll þau gögn sem menn vilja sjá. Þór segir að ef engar alvarlegar athugasemdir berist fyrir miðjan mars verður starfleyfi verksmiðjunnar gefið út, sem gildir frá upphafi starfseminnar, árið 2007, til ársins 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert