Borgarleikhúsið fullt út úr dyrum á borgarafundi gegn Kárahnjúkavirkjun: Kallað stríð gegn fósturjörðinni

mbl.is/Sverrir

"Í sama mund og við erum að öðlast djúpan skilning á náttúru landsins og átta okkur um leið á hver við erum, stefnum við í að glata þessum auðæfum og þjóðararfi í glórulausu virkjanabrjálæði, í stríðsrekstri gegn fósturjörðinni," sagði Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur og rithöfundur, meðal annars á borgarafundi, sem haldinn var í Borgarleikhúsinu í Reykjavík í gærkvöldi undir yfirskriftinni "Leggjum ekki landið undir - það tapa allir á Kárahnjúkavirkjun."

Kastljósinu var beint að Kárahnjúkum í tengslum við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir og var samþykkt yfirlýsing þar sem áformum um virkjunina var harðlega mótmælt og skorað á ráðamenn að endurskoða afstöðu sína. Fundurinn var mjög fjölmennur, troðfullur salur, fólk á göngum og frammi í anddyri. Baráttuandi sveif yfir vötnum í ávörpum, ræðum, kveðjum og skemmtiatriðum, en sérstakur gestur var Lloyd Austin, framkvæmdastjóri Konunglega breska fuglaverndunarfélagsins.

Borgarstjóra líkt við Pílatus

"Með Kárahnjúkavirkjun og álveri henni tengdu, ásamt fyrirhuguðum stækkunum Norðuráls og Ísals, mun Ísland innan fárra ára verða mesta bræðsluland álfunnar," sagði Pétur Gunnarsson rithöfundur í erindi sínu. "Fyrir dyrum stendur krossfesting. Ameríski álrisinn er þá í gervi Rómverja, ríkisstjórnin er æðstuprestarnir og borgarstjórinn í Reykjavík í hlutverki Pílatusar."

Guðmundur Páll Ólafsson flutti lengstu ræðuna og lengst af mátti heyra saumnál detta meðan hann talaði. Eins og aðrir gagnrýndi hann framkvæmdirnar. "Við eyddum aðeins einu íslenskru sumri í rannsóknir vegna Kárahnjúkavirkjunar; í heila fimm daga mældu menn framburð, botnskrið aurugustu jökulmóðu á Íslandi og afar dyntóttrar. Kannski hefðu tíu ár verið eðlilegur tími! Og þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar var samt sem áður sú að náttúruspjöll Kárahnjúkavirkjunar væru umtalsverð og óafturkræf ærðust goðin á stallinum og fúskararnir tóku við."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert