Stefnt að undirritun orkusamnings við Alcoa í lok janúar eða byrjun febrúar

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar,.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar,. mbl.is/Arnaldur

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að það hafi aldrei staðið til að undirrita orkusamning við Alcoa fyrr en í fyrsta lagi í lok janúar eða byrjun febrúar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagði í gær að það væri skynsamlegt af Landsvirkjun að bíða með undirritun orkusamnings, þar til borgarstjórn hefði fjallað um málið 16. janúar.

Gert er ráð fyrir því að stjórnarfundur verði hjá Landsvirkjun 10. janúar og á sama tíma verður stjórnarfundur í Alcoa. Á þeim fundum munu aðilar fjalla um málið. „Ég er að vona að niðurstaðan á þeim fundum verði jákvæð. Sjálf undirskriftin fer ekki fram fyrr en síðar þannig að eigendum gefst nægur tími til þess að fara yfir málið. Það er auðvitað nauðsynlegt áður en skrifað er undir samninginn, að það liggi fyrir vilji eigenda til að ábyrgjast þau lán sem þarf til að í þetta verkefni verði farið," sagði Friðrik.

Eigendanefnd mun væntalega skila skýrslu sinni um arðsemismat þriðjudaginn, 7. janúar. Skýrslan mun verða lögð fyrir borgarráð sama dag. Málið verður væntanlega síðan afgreitt viku síðar frá borgarráði, eða 14. janúar. Ef klofningur verður í borgarráði verður málið tekið upp á borgarstjórnarfundi 16. janúar og málið þá væntanlega endanlega afgreitt þar.

Friðrik segir að það þurfi einnig að leggja fram frumvarp til Alþingis, sem verður líklega tilbúið í næstu viku. Þetta er heimildarfrumvarp fyrir ríkisstjórnina til þess að geta samið við Alcoa vegna álvers í Reyðarfirði. Það verður að liggja fyrir að meirihluti Alþingis ætli sér að styðja það frumvarp áður er farið verður að skrifa undir bindandi samning.

„Undirskriftin getur ekki farið fram fyrr en allt þetta liggur fyrir. Stjórn Landsvirkjunar getur þó fjallað um málið og samþykkt niðurstöðuna fyrir sitt leyti, með þeim fyrirvörum sem eðlilegir eru. Það er undirskriftin sjálf sem bindur viðkomandi aðila."

Friðrik segir að reiknað sé með að gengið verði frá samningum við ítalska verktakafyrirtækið Impregilo, sem átti lægsta tilboðið í Kárahnjúkastíflu og jarðgöng, í byrjun febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert