Vonbrigði að Alcoa ætli ekki að nota umhverfisvænni tækni

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að niðurstaða Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði komi sér ekki á óvart. „Það sem vekur helst vonbrigði er að Alcoa virðist ekki ætla að nota óvirk rafskaut sem takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda frá álverum niður í nánast ekki neitt. Þess í stað virðist Alcoa ætla að nota kolarafskaut,“ segir Árni.

Talið er að með notkun óvirkra rafskauta í álframleiðslu dragi úr koltvísýringsútblæstri álvera um 25-30% en um 45% hjá vatnsaflsknúnum álverum.

„Eðlilega kemur þessi nýja tækni til góða því alls staðar í hinum iðnvædda heimi felst kostnaður í því að losa gróðurhúsalofttegundir út í okkar sameiginlega andrúmsloft,“ segir Árni. Hann fagnar því að losa eigi minna magn af gróðurhúsalofttegundum í fyrirhugaðu álveri Alcoa en Reyðarál hafði í bígerð. „Engu að síður er um að ræða gífurlegt magn,“ segir Árni.

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert