Fyrri úrskurður um álver í Reyðarfirði gildir

Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.
Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að breytingar á áformum um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Því gildir úrskurður stofnunarinnar, sem gefinn var út í ágúst í fyrra um álver með allt að 420 tonna ársframleiðslu, áfram. Upphaflegi úrskurðurinn byggðist á áformum Reyðaráls en álver, sem bandaríska fyrirtækið Alcoa hyggst reisa, er heldur minna í sniðum og ársframleiðslan u.þ.b. 25% minni en gert var ráð fyrir í verksmiðju Reyðaráls eða allt að 322 þúsund tonn.

Alcoa afhenti Skipulagsstofnun í nóvember skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hugsanlegs álvers á Austurlandi og áhrifum þess á atvinnulíf og samfélag á svæðinu. Skýrsla Alcoa byggist á skýrslu sem unnin var vegna áður fyrirhugaðrar verksmiðju Reyðaráls en dró fram hvernig áhrif af verksmiðju Alcoa muni verða frábrugðin áhrifum hennar.

Alcoa sagði þá, að þótt fyrirhugað álver sé minna en það álver sem ráðgert var að byggja á vegum Reyðaráls, muni störfum á Austurlandi fjölga til muna með tilkomu þess. Samkvæmt skýrslunni er áætlað að við verklok muni 455 einstaklingar vinna beint fyrir Alcoa en að auki muni 295 störf skapast í tengslum við álverið. Alls er því gert ráð fyrir að 750 ný störf skapist á svæðinu. Reiknað er með því að allt að 1.800 störf muni skapast meðan á byggingu álversins stendur.

Þá er gert ráð fyrir að verksmiðja Alcoa komi til með að valda minni umhverfisáhrifum en sú verksmiðja sem Reyðarál ráðgerði að byggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert