Mikilvægir fundir áður en ákvörðun er tekin

Yfirmaður á umhverfis-, heilsu- og öryggissviði Alcoa, Ástralinn Wade Hughes, hefur ásamt fleiri fulltrúum álfyrirtækisins fundað hér á landi síðustu daga og kynnt sér aðstæður á Austfjörðum vegna fyrirhugaðra álvers- og virkjanaframkvæmda. Hughes segir í samtali við Morgunblaðið að fundir sem hann hafi átt með talsmönnum stjórnmálaflokka, náttúruverndarsamtaka og stofnana hafi verið einkar ánægjulegir og jafnframt mikilvægir fyrir Alcoa áður en fyrirtækið taki sínar lokaákvarðanir um byggingu álvers í Reyðarfirði.

Wade Hughes hefur hitt Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra, fulltrúa frá Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Landsvirkjun, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Fjarðabyggð og talsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar. Þá bauð Hughes til fundar við sig í gær nokkrum af þeim mótmælendum sem staðið höfðu fyrir utan fundarstaðinn í Reykjavík, m.a. Hildi Rúnu Hauksdóttur sem á mánudag fór í mótmælasvelti vegna fyrirhugaðra álvers- og virkjanaframkvæmda á Austurlandi.

"Við höfum fengið betri skilning á þeim fjölbreyttu og ólíku sjónarmiðum sem ríkja hér á landi í garð framkvæmdanna. Þessir fundir hafa verið mikilvægir fyrir Alcoa og gefið okkur tækifæri til að heyra skoðanir Íslendinga áður en lokaákvarðanir verða teknar. Við höfum í hyggju að ráðast í byggingu álvers og verða hluti af íslensku samfélagi í að minnsta kosti eitt hundrað ár," segir Hughes.

Hann segir móttökurnar á fundunum almennt hafa verið góðar, sem og viðræðurnar. Vitnar hann til orðtaks í Ástralíu, síns heimalands, um að þeir sem hann hafi hitt hafi verið "fair dinkum", þ.e. opinskáir, heiðarlegir og einlægir.

"Ég er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að hitta alla þessa ólíku hópa og hlusta á þeirra viðhorf. Við virðum þau sjónarmið sem mótmælendur framkvæmdanna hafa og reynum eftir megni að taka tillit til þeirra, hvort sem það er á sviði umhverfis- eða samfélagsmála. Við höfum hins vegar gert öllum ljóst að við munum ekki geta fullnægt skilyrðum allra og áreiðanlega verða einhverjir fyrir vonbrigðum með okkar ákvörðun, hver sem hún verður. Verði ákveðið að ráðast í byggingu álversins vona ég að þessir fundir hafi verið upphaf umræðu sem gefi tækifæri til einhvers konar samstarfs síðar meir," segir Hughes.

Meðal þess sem til tals hefur komið á fundum Hughes og félaga hans hjá Alcoa eru hugmyndir um þjóðgarð norðan Vatnajökuls, síðast á fundi í gær með formanni Samfylkingarinnar, Össurri Skarphéðinssyni. Spurður um þetta segist Hughes hafa fundið fyrir miklum áhuga á þjóðgarðshugmyndinni. Það sé þó ekki á valdi Alcoa að framkvæma hana heldur íslenskra stjórnvalda. Vilji almennings til þess þurfi einnig að vera fyrir hendi. Fyrirtækið sé hins vegar meira en reiðubúið til að styðja hana, þannig að vernda megi hálendissvæðin.

Aðspurður hvort mótmælin fyrir utan fundarstað í Reykjavík hafi komið honum á óvart segir Hughes svo ekki vera. Hann hafi vitað um nokkra andstöðu hér á landi við áform Alcoa.

Virðum sjónarmið mótmælenda

"Við höfum ekkert á móti friðsömum mótmælum. Ég var mjög þakklátur að þau skyldu vilja koma að hitta okkur. Við virðum þeirra sjónarmið og vonumst til þess að geta átt frekari samvinnu á síðari stigum málsins," segir Hughes. Hann fór af landi brott í gær og mun gefa samninganefnd Alcoa og sínum yfirmönnum í Bandaríkjunu skýrslu um Íslandsferðina og það sem fram kom á fundunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert