Hærra menntunarstig með álveri

Fundinn sátu m.a. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Mike Baltzell …
Fundinn sátu m.a. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Mike Baltzell aðalsamningamaður Alcoa. mbl.is/Kristín

Bygging álvers í Reyðarfirði myndi stuðla að fólksfjölgun, hærra hlutfalli ungs fólks, hærra menntunarstigi og sterkara hagkerfi, að því er kemur fram í niðurstöðum mats sem Sigfús Jónsson kynnti í dag. Fulltrúar Alcoa, Landsvirkjunar, ráðuneyta og sveitarstjórnar á Austurlandi hafa verið í kynnisferð um fyrirhuguð framkvæmdasvæði vegna virkjunar við Kárahnjúka og álvers í Reyðarfirði.

Iðnaðarsvæðið við Hraun í Reyðarfirði var skoðað, þéttbýliskjarnarnir Eskifjörður, Reyðarfjörður og Neskaupstaður í Fjarðabyggð voru heimsóttir. Þá tók Helga Steinson skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað á móti hópnum og sýndi þeim aðstöðu verknámsnemenda. Vonir eru bundnar við að Verkmenntaskólinn komi að menntun starfsmanna í fyrirhuguðu álveri Alcoa í Reyðarfirði.

Í dag var haldinn kynningarfundur í Neskaupstað þar sem Sigfús Jónsson kynnti niðurstöður úr mati sem hann hefur unnið um félagsleg- og efnahagsleg áhrif fyrirhugaðs Álvers Alcoa á Mið-Austurlandi. Helstu jákvæðu áhrif sem bygging álvers hefði á svæðið, að mati Sigfúsar eru fólksfjölgun, hærra hlutfall ungs fólks, hærra menntunarstig og sterkara hagkerfi. Möguleg neikvæð áhrif gætu m.a. falist í minniháttar félagslegum vandamálum tengdum verkamönnum sem koma tímabundið til starfa á svæðinu.

Elísabet Benediktsdóttir frá Þróunarstofu Austurlands kynnti þá vinnu sem Þróunarstofan hefur unnið til að undirbúa svæðið undir komu álvers. Til dæmis hefur ýmislegt verið gert til að styrkja þau fyrirtæki sem fyrir eru á svæðinu.

Mike Baltzell einn aðalsamningamaður Alcoa kynnti fyrirtækið Alcoa, umfang þess í heiminum, starfsemi, skipulag, umhverfis- og heilbrigðisstefnu og fleira í þeim dúr. Í máli Baltzell kom fram að fyrirtækið hefur mikinn metnað þegar kemur að umhverfismálum og málefnum er varða heilbrigði starfsmanna. Einnig lagði hann áherslu á að það væri vilji Alcoa að nýta fyrst og fremst innlent vinnuafl í fyrirhuguðu álveri, en að auðvitað yrðu sérfræðingar Alcoa á ýmsum sviðum líka nýttir.

Að loknum kynningarfundi í Neskaupstað hélt hópurinn áleiðis til Egilsstaða til frekari fundahalda og á morgun er ráðgert að fara landleiðina inn að Kárahnjúkum, en forsvarmenn Alcoa hafa fram að þessu einungis skoðað staðinn úr lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert