Alcoa opnar íslenska vefsíðu

Bandaríska álfyrirtækið Alcoa opnaði í dag íslenska vefsíðu, sem ætlað er að miðla nýjustu upplýsingum um fyrirhugaða álverksmiðju við Reyðarfjörð. Viljayfirlýsing um formlegt samstarf vegna 295.000 tonna álverksmiðju á Austurlandi var undirrituð í júlí af Alcoa, ríkisstjórn Ísland og Landsvirkjun.

Í tilkynningu frá Alcoa segir, að fyrirtækinu sé mikið í mun að Íslendingar eigi kost á nákvæmum íslenskum upplýsingum um stöðu verkefnisins, umhverfis-, efnahags- og öryggismál. Þá muni vefsíðan einnig gefa Íslendingum kost á því að kynna sér hvernig Alcoa hafi staðið að sambærilegum verkefnum annars staðar í heiminum og hvernig fyrirtækið stóð að því að draga úr umhverfisáhrifum þeirra. Erfitt sé að komast hjá því að verkefni af þessarri stærðargráðu hafi áhrif á umhverfið en með vefsíðunni vilji Alcoa gera öllum hlutaðeigandi aðilum ljóst hver þessi áhrif geta orðið og hvernig Alcoa hyggst bregðast við þeim.

Vefsíðan inniheldur allar þær fréttatilkynningar er sendar hafa verið út um verkefnið, auk samantektar af fréttum úr íslenskum fjölmiðlum. Þá eru skoðanir ýmissra áhrifamanna úr íslensku þjóðlífi á verkefninu birtar. Þar eru einnig tenglar inn á aðrar vefsíður og efni sem tengist verkefninu, svo sem á umhverfismat vegna verkefnisins frá Skipulagsstofnun og heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Íslensk heimasíða Alcoa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert