Stækkun Norðuráls 30 milljarða framkvæmd

Landsvirkjun og Norðurál undirrituðu í gær samkomulag um afhendingu orku vegna fyrri áfanga stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga, það er stækkun úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn. Eftir síðari áfanga yrði álverið alls 240.000 tonn. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki stjórna beggja fyrirtækja.

Samkomulagið er einnig háð fyrirvörum, til dæmis um að Norðurál tryggi sér hráefni til stækkunarinnar og gangi frá fjármögnun hennar, samningar takist um orkuverð og að leyfi fáist fyrir nauðsynlegum orkuframkvæmdum, þar á meðal Norðlingaölduveitu.

Alls er orkuþörf vegna stækkunarinnar í 180.000 tonn, um 1.300 gígavattstundir, á ári, sem jafngildir meðalaflþörf upp á 150 megavött.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að Landsvirkjun afli orkunnar með ýmsu móti, til dæmis með orkuframkvæmdum á Þjórsársvæðinu og jarðgufuvirkjunum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur.

Kominn grunnur að hugsanlegu orkuverði

"Norðurál og Landsvirkjun hafa verið í viðræðum frá því um síðastliðin áramót, og nú hefur náðst samkomulag um stærð á álveri og um virkjanakosti. Einnig hafa samningaviðræður um orkuverð hafist, og er kominn grunnur að hugsanlegu orkuverði," sagði Edvard G. Guðnason, markaðsstjóri hjá Landsvirkjun.

Gert er ráð fyrir að fyrri hluti stækkunarinnar, það er úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn, muni kosta um 30 milljarða króna á núverandi gengi. Að sögn Ragnars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnunarsviðs hjá Norðuráli, hafa nokkrar erlendar fjármálastofnanir þegar sýnt áhuga á að taka að sér fjármögnun stækkunarinnar.

Núverandi starfsleyfi álversins nær til 180.000 tonna ársframleiðslu, en meðal fyrirvara samkomulagsins er, að samþykkt verði starfsleyfi fyrir allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Síðastliðið vor féllst Skipulagsstofnun á þá stækkun, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum.

Allt að 150 nýir starfsmenn ráðnir

Verði af fyrirhugaðri stækkun álversins í 180.000 tonn má gera ráð fyrir að allt að 150 nýir starfsmenn verði ráðnir.

Aðspurður segir Ragnar Guðmundsson að undirbúningur framkvæmda muni hefjast, ef samningar takast, á næsta ári, og nýi áfanginn verði tekinn í notkun árið 2005.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert