Vekur tiltrú á að hlutirnir geti gengið hratt fyrir sig

Friðrik Sophusson segir að strax frá þeim tíma er hann tók við stöðu forstjóra Landsvirkjunar í upphafi árs 1999 hafi menn farið að ræða við Norðmenn og Reyðarál og vinna hafi svo að segja staðið yfir allar götur síðan.

"Ég veit ekki hvort ég á að þora að segja það," heldur Friðrik áfram, "en hugmyndir manna um virkjanir fyrir austan í tengslum við eitthvert ákveðið álver má rekja allt aftur til áranna 1987 og 1988 þegar ég sat í iðnaðarráðuneytinu. Þá var verið að tala um álver á öðrum stað á landinu en orkuna átti að sækja til jökulánna norðan Vatnajökuls. Þessi hugmynd er því auðvitað gömul og meira að segja talsvert eldri en þetta."

Segir Alcoa vera öflugt fyrirtæki

Friðrik segir að hingað sé nú komið fyrirtæki sem sé í senn mjög stórt og öflugt og ætli sér að auka álframleiðslu sína á næstu árum. "Það vinnur mjög hratt að þessum málum og hefur fullkomlega getu til þess því þetta er eitt stærsta álfyrirtæki í heiminum. Sá er munurinn á þessum málum núna og var fyrir nokkrum mánuðum en þá átti að stofna hlutafélag með takmarkaða ábyrgð í eigu bæði Íslendinga og útlendinga, þó í minnhlutaeigu Norsk Hydro, til þess að fást við þetta stóra verkefni. Það var auðvitað miklu brothættara samband en núna þegar við eigum viðskipti við þetta gífurlega stóra og öfluga fyrirtæki sem þarf ekki að leita að einhverjum bandamönnum til þess að mynda hlutafélag heldur ber sjálft ábyrgð á öllu því sem það er að gera hér á landi. Það hlýtur auðvitað að vekja ákveðið traust og tiltrú á það að hlutirnir geti gengið hratt og ákveðið fyrir sig."

Friðrik tekur þó fram að hann vilji ekki gera lítið úr því sem Norðmenn hafi gert:

Verkefnið komið skrefinu lengra en hjá Norsk Hydro

"Þeir lögðu vissulega grunninn að því sem komið er í þessu máli og það má ekki vanmeta það. Án þess grunns hefði þetta tekið miklu lengri tíma. En núna, aðeins þremur mánuðum eftir að Alcoa hafði samband við okkur, hefur aðalforstjóri fyrirtækisins komið hingað og kynnt sér aðstæður og þá hefur málið einng verið rætt ítarlega í stjórn fyrirtækisins. Málið komst aldrei svo langt hjá Norsk Hydro að aðalstjórn fyrirtækisins ræddi málið í fullri alvöru heldur var það einungis gert á vegum framkvæmdastjórnar fyrirtækisins. Málið er því að þessu leyti komið lengra en það var á sínum tíma þótt enn eigi eftir að ganga frá stórum málaflokkum, eins og raforkuverði," segir Friðrik.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert