Viljayfirlýsingin mikilvægt skref í viðræðunum

Undirritun viljayfirlýsingar um formlegar viðræður vegna álvers í Reyðarfirði verður að öllum líkindum á morgun, föstudag, en aðgerðaáætlun sem undirrituð var í maí sl. átti að gilda til dagsins í dag, 18. júlí. Jake Siewert, upplýsingafulltrúi Alcoa, heimsótti Morgunblaðið í gær ásamt Michael Padgett, yfirmanni fjármögnunardeildar fyrirtækisins í New York, og ræddi við blaðamenn um verkefnið.

Að sögn Siewerts lítur Alcoa á undirritun viljayfirlýsingarinnar sem mikilvægt skref fram á við í viðræðum við stjórnvöld. Í viljayfirlýsingunni felist alvarleg skuldbinding þar sem Alcoa sé reiðubúið að kosta fjármagni í frekari hagkvæmniathuganir og annan undirbúning. Fyrirtækið vilji hraða viðræðum eins og kostur sé og hefjast sem fyrst handa við byggingu álversins.

Aðspurður segir Siewert að Alcoa hafi ekki þá stefnu að vinna jafnhratt að málum og fyrirtækið hefur gert hér á landi síðustu mánuði. Dæmi séu um að ákveðin verkefni hafi verið í athugun árum saman án þess að mikið gerist. Nú sé Alcoa t.d. fyrst að leggja umtalsvert fjármagn í verkefni í Kína sem byrjað var að kanna fyrir tíu árum. Hann segir að hér á landi hafi legið fyrir vel undirbúið stóriðjuverkefni á Austurlandi, auk þess sem viðræður við stjórnvöld hafi gengið snurðulaust fyrir sig. Einnig hafi lega landsins haft mikið að segja um áhuga Alcoa, þ.e. að Ísland sé um miðja vegu milli tveggja stærstu álmarkaða heims; Evrópu og Bandaríkjanna. Þá skipti máli að Ísland sé innan Evrópska efnahagssvæðisins og þar með þurfi álverið í Reyðarfirði ekki að greiða toll af afurðum sínum sem fari héðan á markaði í Evrópu.

"Við viljum reisa fullkomið álver sem uppfyllir allar kröfur um nýjustu tækni og umhverfisvernd. Aðstæður hér eru þær bestu í heiminum sem við höfum skoðað til þessa," segir Siewert.

Hann segir viðræður standa yfir við Landsvirkjun um orkuverð og fleiri þætti, m.a. mögulega þátttöku Alcoa í kostnaði við undirbúningsframkvæmdir Kárahnjúkavirkjunar. Hann vill ekki tjá sig nánar um þær viðræður á meðan niðurstaða liggi ekki fyrir. Hann segist hafa skilning á því að Landsvirkjun vilji hafa í hendi einhverja tryggingu frá Alcoa um aðild að framkvæmdunum.

Reiðubúnir til viðræðna um þátttöku í byggingu verndarsvæðis

Eins og fram hefur komið í máli stjórnenda Alcoa er fyrirtækið hrifið af hugmyndum um þjóðgarð norðan Vatnajökuls í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar en Siewert minnir á að slíkur þjóðgarður sé alfarið mál stjórnvalda. Fyrirtækið sé þó reiðubúið til viðræðna um einhvers konar þátttöku í því verkefni. Hann bendir á að Alcoa hafi í öðrum löndum, t.d. Ástralíu, gengið til samstarfs við heimamenn um að koma upp náttúruverndarsvæði við vatnsfallsvirkjanir og álver sem fallið hafa vel inn í umhverfið. Siewert segir Alcoa sjá þarna svipaða möguleika varðandi Kárahnjúkavirkjun en ítrekar að stjórnvöld þurfi að eiga þar síðasta orðið.

Að sögn Jakes Siewerts hefur fyrirtækið ákveðið að reisa ekki rafskautaverksmiðju við hlið álversins líkt og Reyðarál hafði áform uppi um, eða allt að 223 þúsund tonna verksmiðju, heldur ætlar Alcoa að flytja rafskautin inn til landsins sjóleiðina frá Bandaríkjunum. Þá ætlar Alcoa ekki að urða kerbrot frá álverinu, en samkvæmt umhverfismatsskýrslu Reyðaráls var ætlunin að urða þau á álverslóðinni. Verða kerbrotin sem falla til við hreinsun keranna flutt til annarrar verksmiðju Alcoa sem sérhæfir sig í endurvinnslu þeirra til notkunar í öðrum iðnaði, m.a. stáliðnaði og sem hráefni til vegagerðar.

Jake Siewert segir að með þessum aðgerðum ætli Alcoa sér að draga sem mest úr mengun frá álverinu og öðrum umhverfisáhrifum. Einnig sparist milljarðar króna í stofnkostnaði álversins. Þess má geta að rafskautaverksmiðja var í úrskurði Skipulagsstofnunar um álverið talin meðal helstu mengunarvalda.

Í máli upplýsingafulltrúans kom að auki fram að talsmenn náttúruverndarsamtaka, m.a. íslenskra, hefðu átt fund með fulltrúum Alcoa í Washington nýlega. Siewert segir að Árni Finnsson, frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, hafi verið meðal viðstaddra en samtökin, ásamt sex öðrum hér á landi, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á dögunum þar sem áformum Alcoa á Íslandi var mótmælt.

Aðspurður segist Siewert ekki hafa verulegar áhyggjur af andstöðu umhverfisverndarsamtaka, hvort sem þau séu erlend eða innlend. Fyrirtækið sé reiðubúið að koma til móts við óskir um að draga sem mest úr umhverfisáhrifum verkefnisins. Vísar Siewert þar til umhverfisstefnu Alcoa, sem hann segir að sé afar metnaðargjörn og unnið sé eftir henni undir ströngu innra eftirliti. Þannig sé búið að setja þá stefnu að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjum Alcoa um fjórðung frá stöðunni árið 1999.

Stærð álversins um 300 þúsund tonn

Vegna frétta í fjölmiðlum undanfarið vill Siewert benda á að ekki sé búið að ákveða endanlega framleiðslugetu álversins í Reyðarfirði. Einkum hefur verið nefnd stærð upp á 320 þúsund tonna framleiðslu á ári en Siewert segir að stærðin sé nær því að vera í kringum 300 þúsund tonn. Þetta fari m.a. eftir þeirri tækni sem notuð verði við framleiðsluna. Hann segir engin áform uppi hjá Alcoa að svo stöddu um stærra álver en þetta. Hann segist hafa fundið fyrir áhyggjum í þá veru í máli talsmanna umhverfisverndarsamtaka en að slíkar áhyggjur séu óþarfar. "Eins og staðan er í dag er þetta stærðin sem við miðum við en við getum ekki sagt fyrir um framtíðina og hver framleiðsluþörf eða orkuöflun verður þá," segir Jake Siewert.

arnorg@mbl.is/bjb@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert