Álver á Reyðarfirði á dagskrá í dag

Stjórnarfundur hjá bandaríska álfyrirtækinu Alcoa hófst í gær og verður honum fram haldið í dag og mun þá stjórnin ræða um hugmyndir um mögulega þátttöku félagsins í því að reisa álverksmiðju á Reyðarfirði. Jake Siewert, upplýsingafulltrúi hjá Alcoa, minnir þó á að hver svo sem niðurstaða stjórnarmanna Alcoa verði eigi enn alveg eftir að ganga frá einstökum efnisatriðum í mögulegum samningum við Íslendinga. Hvað snerti ákveðna þætti verkefnisins sé ekki hægt að ræða um þá fyrr en viljayfirlýsing beggja aðila liggi fyrir.

Aðspurður segir Siewert að stjórnendur Alcoa hafi átt í ýtarlegum viðræðum við umhverfissamtök um mögulega þátttöku félagsins í verkefninu á Reyðarfirði. Verði af því sé Alcoa staðráðið í því að nýta bestu fáanlegu tækni til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Siewert segir að áhyggjur manna beinist vitaskuld mest að virkjunarframkvæmdum og Alcoa hafi átt í viðræðum við umhverfissamtök, íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun um að koma mætti upp eins konar vernduðu svæði eða "þjóðgarði" nálægt virkjuninni.

"Það er auðvitað ólíklegt," segir Jack Siewert, "að það dugi til þess að milda afstöðu þeirra sem vilja ekki að ráðist verði í nokkrar framkvæmdir yfirleitt. En við teljum hins vegar mikilvægt að tekið verði frá sérstakt landsvæði handa komandi kynslóðum. En þegar upp er staðið er það Íslendinga og íslenskra stjórnvalda að taka endanlega ákvörðun um slíkt."

Formenn sjö umhverfis- og náttúruverndarsamtaka á Íslandi hafa sent formanni stjórnar Alcoa bréf vegna væntanlegrar ákvörðunar stjórnarinnar um kaup á orku af Landsvirkjun.

Í því er skorað á stjórn Alcoa að slíta viðræðum við íslensk stjórnvöld um möguleg orkukaup vegna álvers á Reyðarfirði enda sé ljóst að framkvæmdum fylgi mikil umhverfisspjöll og mjög skiptar skoðanir séu á meðal Íslendinga um slíkar framkvæmdir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert