Telur áhrif af virkjun algerlega vanmetin

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Félagi leiðsögumanna. "Vegna yfirlýsingar Alcoa frá 28. júní vill Félag leiðsögumanna benda á nokkur atriði.

Félag leiðsögumanna telur algerlega vanmetin þau áhrif sem fyrirhuguð bygging Kárahnjúkavirkjunar myndi hafa á ferðaþjónustu í landinu. Um er að ræða eyðileggingu á stærsta ósnortna víðerni Vestur-Evrópu. Fráleitt er að halda því fram - líkt og Alcoa gerir - að Kárahnjúkavirkjun muni ekki valda "meiriháttar" umhverfisspjöllum. Sú fullyrðing Alcoa gengur þvert á úrskurð skipulagsstofnunar og niðurstöðu Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Vegna virkjanaáforma hefur þróun ferðaþjónustu á svæðinu ekki vaxið líkt og efni standa til, enda hafa ferðaþjónustufyrirtæki ekki fjárfest í nauðsynlegri uppbyggingu í ljósi þeirra áforma. Þó er ljóst að hér er um að ræða afar margbrotna náttúru og einstakt svæði á heimsvísu þar sem jöklar og heitar lindir, beljandi fossar, mikilfengleg glúfur og víðerni með einstöku lífríki, gróður-og náttúruminjum er að finna á landfræðilega mjög afmörkuðu svæði. Einstakt tækifæri til að stofna stærsta þjóðgarð Vestur-Evrópu mun glatast verði af virkjanaframkvæmdum.

Það er rangt að halda því fram að Hálslón (sem yrði uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar) sé einn besti vatnsaflsvirkjunarkostur sem fyrir hendi er í heiminum, þar sem arðsemismat sem tekur til fórnarkostnaðar hefur ekki verið framkvæmt. Gríðarlega miklir fjármunir eru í húfi. Félag leiðsögumanna skorar á Alcoa að taka ekki þátt í stærsta umhverfisslysi Íslandssögunnar."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert