Þörf á nýju mati ef framkvæmdin er önnur en í úrskurði

Stefán Thors skipulagsstjóri telur að ef framkvæmd Alcoa á álveri í Reyðarfirði verður önnur en sú sem Skipulagsstofnun úrskurðaði um vegna álvers og rafskautaverksmiðju Reyðaráls þurfi að fara fram nýtt mat á umhverfisáhrifum.

Með annarri framkvæmd segist hann m.a. eiga við aðra stærð á álveri og framleiðsluaðferð og enga rafskautaverksmiðju. Það er einmitt sá þáttur sem Alcoa er að skoða sérstaklega en mun meiri mengun er af framleiðslu rafskauta en áls.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins kemur til greina af hálfu Alcoa að framleiða ekki rafskaut við álverið heldur flytja þau inn, líkt og Ísal og Norðurál gera þar sem engin slík verksmiðja er starfandi hér á landi. Michael Baltzell, aðalsamningamaður Alcoa í viðræðunum við íslensk stjórnvöld, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að rafskautaverksmiðja væri einn af þeim stóru þáttum sem fyrirtækið væri að kanna sérstaklega. Þar þyrfti að taka tillit til þátta eins og mengunar, orkuöflunar og kostnaðar og of snemmt væri að segja til um hvort Alcoa ætlaði að reisa slíka verksmiðju eða ekki. Öllum möguleikum yrði haldið opnum í könnunarviðræðum næstu vikurnar. Baltzell sagði að í flestum tilvikum væri Alcoa með rafskautaverksmiðjur við hlið sinna álvera en á því væru nokkrar undantekningar.

Umhverfismat vegna Reyðaráls tók rúmt ár

Skipulagsstofnun skilaði úrskurði sínum í ágúst í fyrra um mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 420 þúsund tonna álver og 223 þúsund tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði, rúmu ári eftir að Reyðarál lagði inn tillögur að matsáætlun. Úrskurðurinn var kærður til umhverfisráðherra, sem síðan skilaði sínum úrskurði í mars síðastliðnum, eða 20 mánuðum eftir að matsskýrslan var fyrst lögð fram.

Athugun Skipulagsstofnunar leiddi í ljós að starfsemi rafskautaverksmiðju myndi valda allt að fjórum sinnum meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs og tæplega 100 sinnum meiri útblæstri svokallaðra PAH-efna en starfsemi álvers ein og sér. Sú stærð af álveri sem Alcoa hyggst einnig skoða er upp á 320 þúsund tonna ársframleiðslu og yrði slíkt álver reist í einum áfanga. Reyðarál hefur verið með áform um að reisa allt að 280 þúsund tonna álver í fyrsta áfanga og stækka það í öðrum áfanga upp í 420 þúsund tonn. Hefur Reyðarál lagt áherslu á að ekki sé hagkvæmt að reisa og reka álver af fyrirhugaðri stærð án rafskautaverksmiðju.

Stefán Thors segir að umhverfismatið fyrir Reyðarál geti ekki gilt fyrir aðra framkvæmd en hann telur jafnframt að ekki verði flókið að fara í gegnum nýtt matsferli ef forsendur breytist í Reyðarfirði, ekki síst ef álverið verði minna og engin rafskautaverksmiðja til staðar. Tímafrestir vegna matsskýrslu séu þó bundnir í lög en öll vinna við umhverfismatið ætti að verða auðveldari vegna þeirrar vinnu sem þegar hafi farið fram.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert