"Teljum að hér séu tækifæri fyrir okkur"

Sendinefnd á vegum bandaríska álfyrirtækisins Alcoa kom til landsins í gær til viðræðna við íslensk stjórnvöld vegna álversframkvæmda á Reyðarfirði, sem Alcoa er að kanna möguleika á að taka þátt í. Fyrir nefndinni að þessu sinni fer Michael Baltzell, framkvæmdastjóri þróunarmála hjá Alcoa, sem er aðalsamningamaður fyrirtækisins í viðræðum þess við stjórnvöld. Með Baltzell í för að þessu sinni eru nokkrir verkfræðingar.

Baltzell sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, þá nýkominn til Egilsstaða, að fyrirtækið hefði mikinn áhuga á að reisa álver á Reyðarfirði sem fengi raforku frá stórri vatnsaflsvirkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun. Hann sagðist vera mjög ánægður með gang mála til þessa og þær upplýsingar sem Alcoa hefði fengið frá stjórnvöldum. Fyrirtækið fengi alls staðar góðar viðtökur og stjórnvöld sýndu mikinn samstarfsvilja. Hann sagði of snemmt að segja til um hvort Alcoa myndi taka þátt í að reisa álver á Reyðarfirði en samkvæmt aðgerðaáætlun á hagkvæmniathugun að vera lokið eigi síðar en 24. maí nk.

Spurður um ástæðu þess að Alcoa sýndi Íslandi áhuga að þessu sinni sagði Baltzell að fyrirtækið væri ávallt að leita að nýjum tækifærum um allan heim. Það væri sitt meginstarf að kanna möguleika á nýjum fjárfestingum í frumvinnslu áls. "Við teljum að hér séu tækifæri fyrir okkur. Álver á Reyðarfirði kallar á vel samkeppnishæft raforkuverð og örugga orkuöflun. Hér er einnig umhverfisvæn vatnsorka og eftir því leitum við," sagði Baltzell.

Sendinefndin heimsótti í gær m.a. höfuðstöðvar Ístaks, Íslenskra aðalverktaka og verkfræðifyrirtækisins Hönnunar. Í dag er svo ætlunin að ræða við heimamenn fyrir austan og skoða álverslóðina á Reyðarfirði.

Vann við Atlantsálsverkefnið

Michael Baltzell er íslenskum stjórnvöldum vel kunnur því á sínum tíma tók hann þátt í viðræðum vegna álversframkvæmda sem fyrirhugaðar voru á Keilisnesi í svonefndu Atlantsáls-verkefni Alumax í Bandaríkjunum, Gränges í Svíþjóð og Hoogovens í Hollandi. Hann starfaði hjá Alumax í 27 ár.

Finnur Ingólfsson, seðlabankastjóri og formaður viðræðunefndar stjórnvalda í álversmálum, er ásamt fleirum í för með Baltzell og félögum á Austfjörðum. Þeir hittust síðast fyrir sex árum er Finnur var iðnaðarráðherra og formlegur endi var bundinn á Atlantsáls-verkefnið. Finnur sagði við Morgunblaðið að áhugi Alcoa nú væri augljóslega mikill og fyrirtækið ynni að málinu í fullri alvöru. Of snemmt væri að segja til um niðurstöðu fyrirtækisins, margt gæti komið upp líkt og reynslan sýndi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert