Segir hik Norðmanna valda vonbrigðum

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði á almennum íbúafundi í Végarði í Fljótsdal um virkjunar- og stóriðjumál á Austurlandi sl. mánudag að ekki væri skynsamlegt að afskrifa þátttöku Norsk Hydro. Formaðurinn fór ítarlega yfir stöðu mála frá sjónarmiði Landsvirkjunar og sagði það hafa valdið sér vonbrigðum að sjá verkefnið styrkjast og þroskast en verða síðan fyrir þessu hiki Norðmanna sem hann sagði að væri vegna annarra fjárfestinga fyrirtækisins.

Fundurinn var haldinn á vegum sveitarstjórnar og fulltrúum Landsvirkjunar og auk frummælandans ræddu aðrir fulltrúar Landsvirkjunar málið og fulltrúar sveitarstjórna. Fundurinn var vel sóttur, bæði af innan- og utansveitarmönnum.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson greindi frá afgreiðslu Alþingis varðandi Kárahnjúkavirkjun. Sagði hann einnig þrjá aðila hafa komið til viðræðna og hann nefndi að Rússar hafi einnig sýnt áhuga. Sem svar við fyrirspurn taldi hann ekki skynsamlegt að fara í samninga við fleiri aðila eins og málin standa.

Forstöðumaður virkjunardeildar, Björn Stefánsson, ræddi orkuöflun fyrir Reyðarál og Kárahnjúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal. Greindi frá uppistöðulóninu og aðrennslisgöngum, einnig stíflugerðinni og yfirfalli. Í sambandi við rekstur Kárahnjúkavirkjunar er reiknað með fimmtán föstum starfsmönnum.

Pétur Ingólfsson verkefnastjóri kom inn á ýmis samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Fljótsdalshrepps, svo sem aðgerðir vegna vatnsbotnshækkunnar í Fljótsdal og staðfestingu landamerkja vegna vatnsréttinda. Einnig fjallaði hann um vegaframkvæmdir sem verður haldið áfram, koma þarf á rafmagni vegna borana jarðganga og haldið áfram vatns- og gróðurfarsrannsóknum út þetta ár og ýmsum samningum við landeigendur.

Þór Þorbergsson tilraunastjóri ræddi vatnsborðsbreytingar og hækkun vatnsborðs í Jökulsá í Fljótsdal, varnaraðgerðir og ræktun nýrra túna. Sýndi hann nokkur kort með hæðartölum sem hann hefur unnið að um tíma.

Kristinn Bjarnason, lögfræðingur sveitarstjórnar, fjallaði um vatnsréttindi, fallbætur, hvað væri vatnsréttindi og aðferðir til að fá niðurstöðu frá lögfræðilegu sjónarmiði.

Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri Landsvirkjunar, ræddi um þjóðgarða og ný tækifæri heimamanna, útivist og ferðamennsku og óskir nútímaferðamannsins sem vill komast út úr ys og þys borgarlífsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert