Kannast við samtöl við stjórnendur Alcoa

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segist í samtali við Morgunblaðið kannast við það að fulltrúi íslenskra stjórnvalda hafi nýlega haft samband við stjórnendur bandaríska álrisans Alcoa, vegna stóriðjuframkvæmda hér á landi. Staðfestir hún þar ummæli eins upplýsingafulltrúa Alcoa í blaðinu á fimmtudag.

Ráðherra segist ekki hafa haft samband persónulega við Alcoa og vill heldur ekki upplýsa hver hafi gert það eða nákvæmlega hvenær.

"Samtöl hafa átt sér stað af hálfu aðila sem heyra undir stjórnvöld. Menn hafa persónuleg sambönd við ýmis stórfyrirtæki og núna er um að gera að rifja upp öll slík sambönd," segir Valgerður.

Hún segir formlegar viðræður hvorki hafa farið fram við Alcoa né önnur álfyrirtæki að undanförnu, enda sé það verkefni nýskipaðrar viðræðunefndar, undir forystu Finns Ingólfssonar, að setja sig í samband við álfyrirtæki og aðra mögulega samstarfsaðila erlendis.

"Alcoa er mjög áhugavert fyrirtæki, enda það stærsta á álmarkaðnum og eitt þeirra sem við horfum mjög til með samstarf í huga. Því er fullkomlega kunnugt um Noral-verkefnið á Íslandi."

Stjórnendur Alcoa hafa áður hitt íslenska ráðamenn

Garðar Ingvarsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingarstofunnar - orkusviðs, sem iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun starfrækja, hefur í gegnum tíðina átt mikil samskipti við erlend álfyrirtæki vegna stóriðjuáforma hér á landi. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Garðar kannast persónulega við marga háttsetta stjórnendur Alcoa, líkt og margra annarra álfyrirtækja, en hann sagðist ekki hafa verið í sambandi við þá nýlega að fyrra bragði. Fyrirtækið hefði fyrr á árum sýnt áhuga á að taka þátt í stóriðjuverkefnum.

Garðar sagðist hafa í gegnum árin bæði tekið á móti stjórnendum Alcoa hér á landi og heimsótt þá oftar en einu sinni. Þannig hefði aðalforstjóri fyrirtækisins komið hingað fyrir nokkrum árum og hitt íslenska ráðamenn að máli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert