Skoða á alla kosti og ekkert útilokað fyrirfram

Finnur Ingólfsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi iðnaðarráðherra, segist í samtali við Morgunblaðið vera bjartsýnn á að álver rísi á Austurlandi í framtíðinni. Reynslan sýni þó að enginn samningur verði kominn í höfn fyrr en "hver einasti stafkrókur" hafi verið undirritaður.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær hefur Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra skipað Finn til að veita formennsku í nefnd sem á að fara í könnunarviðræður við nýja fjárfesta í álveri á Austurlandi. Auk Finns eru í nefndinni þeir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Kristján Skarphéðinsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu. Finnur segir að nefndin muni skoða alla kosti í stöðunni og ekki útiloka neitt fyrirfram. Mikilvægast sé að nálgast verkefnið með opnum huga.

"Mér líst vel á verkefnið og gat því ekki skorast undan því þegar Valgerður leitaði til mín. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi séu mjög mikilvægar, jafnt fyrir efnahagslífið í landinu í heild sem og byggðirnar á Austfjörðum. Fyrsta verkefni okkar í nefndinni er að meta stöðuna í þessum álmálum," segir Finnur.

Aðspurður hvar helstu möguleikarnir liggja í að fá nýja fjárfesta að stóriðju hér á landi, segir Finnur að mestu skipti að átta sig á hvar verkefnið sé statt og hvort tækifæri séu á að fá nýja aðila. Hann segist hafa þá trú að fyrirtæki, sem ætli að fjárfesta í áliðnaði í framtíðinni, séu tilbúin að fjárfesta í álveri á Reyðarfirði þar sem verkefnið sé mjög arðbært.

"Þeir sem ætla að hasla sér enn frekari völl í áliðnaði hljóta að horfa á arðsemi verkefnanna. Þá er um tvennt að ræða, annars vegar að koma inn í Noral-verkefnið, sem er ágætlega skilgreint, og hins vegar að leita aðila sem tilbúnir eru að koma að nýju verkefni fyrir austan."

Á opnum fundi á Reyðarfirði í fyrrakvöld nefndi Valgerður Sverrisdóttir fjögur álfyrirtæki sem mögulega nýja samstarfsaðila; Alcoa, Alcan, Pechiney og BHP Billiton. Aðspurður hvaða fyrirtæki komi helst til greina í viðræðum nefndarinnar segir Finnur þau öll koma til greina. Þau séu mjög stór á sviði álframleiðslu og án efa yrði fengur að því að fá þau til samstarfs.

"Álheimurinn er lítill og þröngur og þessum fyrirtækjum er án efa mjög vel kunnugt um Noral-verkefnið á Íslandi. Þau vita hvert af öðru í fjárfestingum og öðru slíku. Við getum ekkert sagt til um það á þessari stundu hverja við munum tala við eða í hvaða röð. Það er heldur ekki útilokað að þessir aðilar sýni málinu það mikinn áhuga að þeir hafi samband við okkur að fyrra bragði. Mér fyndist það ekki ósennilegt því verkefnið sem um ræðir er arðbært," segir Finnur.

Hann segir viðræðunefndina ekki hafa hist en muni gera það fljótlega, auk þess að eiga fund með iðnaðarráðherra. Nefndin hefur fengið erindisbréf en Finnur segir að henni sé ekki gefinn neinn lokafrestur til að skila af sér. Reynt verði að vinna eins hratt og kostur sé að málinu.

"Við höfum brennt okkur á því á undanförnum árum að hafa sett fram tímaáætlanir sem við höfum ekki getað staðið við. Við annan aðila er að semja og við ráðum ekki ein ferðinni. Allir voru bjartsýnir á að verkefnið með Norsk Hydro gengi upp en síðan kemur í ljós að fyrirtækið er ekki reiðubúið að standa við gefnar tímaáætlanir."

Höfum upp á margt að bjóða

Hvort til greina komi í viðræðum við nýja fjárfesta að undirbúa minna álver en gert hefur verið á Reyðarfirði vill Finnur ekkert segja um. Kárahnjúkavirkjun kalli á stóran orkukaupanda og að því leyti sé verkefninu ætlaðar ákveðnar skorður. Nefndin muni fyrst kynna það verkefni sem hafi legið fyrir á Reyðarfirði og síðar muni koma í ljós hvort nýr aðili sé tilbúinn að koma að því og á hvaða forsendum.

"Aðalatriðið er að ná árangri í því að þarna verði byggt álver sem nýti raforku úr Kárahnjúkavirkjun. Ég tel að við höfum mjög margt upp á að bjóða hér, sem getur verið áhugavert fyrir hvaða stórfyrirtæki sem er á þessu sviði í heiminum. Við munum nálgast verkefnið út frá því," segir Finnur að endingu í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert