Efnisgreinar frumvarps um virkjun á Austurlandi samþykktar á Alþingi

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG og Hjálmar Árnason Framsóknarflokki voru …

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG og Hjálmar Árnason Framsóknarflokki voru á öndverðum meiði um Kárahnjúkafrumvarpið.
mbl.is

Efnisgreinar lagafrumvarps um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal voru samþykktar á Alþingi í dag með 42 atkvæðum sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og hluta þingmanna Samfylkingarinnar gegn átta atkvæðum þingmanna Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og 2 þingmanna Samfylkingar. Þrír þingmenn sátu hjá, báðir þingmenn Frjálslynda flokksins og Katrín Fjeldsted þingmaður Sjálfstæðisflokks. Frumvarpinu var síðan vísað til þriðju umræðu en þingmenn VG greiddu atkvæði gegn því að vísa frumvarpinu áfram.

Katrín sagði, þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu, að hún teldi að þær mótvægisaðgerðir, sem fyrirhugaðar væru vegna virkjunarframkvæmdanna við Kárahnjúka, væru ekki nægar að hennar mati og arðsemi af virkjuninni væri ekki slík að hún réttlætti stórfelld náttúruspjöll. Þá sagðist hún telja að stórfelld ríkisafskipti af atvinnustarfsemi ættu að heyra fortíðinni til. Aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem tóku til máls, lýstu stuðningi við frumvarpið. Þannig sagði Vilhjálmur Egilsson að hann teldi að sá þjóðhagslegi ávinningur, sem yrði af framkvæmdinni, réttlætti fyllilega þá röskun sem yrði á umhverfinu. Áður en efnisgreinar frumvarpsins voru afgreiddar voru greidd atkvæði um frávísunartillögu Árna Steinars Jóhannssonar þingmanns Vinstri-grænna og var hún felld með 42 atkvæðum gegn 7 en fjórir sátu hjá. Árni Steinar sagði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu að þar sem ólokið væri gerð rammaáætlunar um forgangsröðum virkjunarkosta væri nú lag til að endurskoða áform um fyrirhugaðar virkjanir á Austurlandi og setja þær inn í rammaáætlun. Aðrir þingmenn VG lýstu andstöðu við frumvarpið og sagði Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins m.a. að það væri þráhyggja og tilgangsleysi að reyna að þröngva þessu úrelta máli í gegn um þingið auk þess sem Alþingi hefði verið leynt mikilsverðum upplýsingum um vinnu málsins. Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, lagði hins vegar áherslu á að um væri að ræða verkefni sem nyti almenns stuðnings bæði utan þings og innan. Virkjunin gæti skilað gífurlegri arðsemi, aukið útflutningsverðmæti um 14% og aukið þjóðarframleiðslu varanlega um 1%, stutt við byggðaþróun á Austurlandi og lagt grunninn að áframhaldandi velferðarkerfi á Íslandi. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði að um væri að ræða eitt stærsta og mikilvægasta mál sem Alþingi hefði fjallað um og Guðjón Guðmundsson þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði að um væri að ræða eitt stærsta byggðamál sem fram hefði komið en virkjunin gæti skapað allt að þúsund ný störf á Austurlandi. Enginn sagði ósatt Áður en formlegur þingfundur hófst á Alþingi í morgun gerði Hjálmar Árnason, formaður iðnaðarnefndar þingsins, grein fyrir aðdraganda þess að Norsk Hydro tilkynnti að fyrirtækið hygðist ekki standa við tímasetningar í samstarfssamningi um undirbúning virkjunarinnar. Sagði Hjálmar eðlilegt að nefndin hefði fengið að vita af því að hik hefði komið fram í viðræðum við Norsk Hydro um fyrirhugaða byggingu álvers á Austurlandi. Hjálmar segir hins vegar að enginn hafi sagt ósatt í umræðu um málið. Hjálmar sagði að iðnaðarnefnd Alþingis hefði fengið til viðræðna fjóra íslenska fulltrúa, sem höfðu haft forystu í viðræðum við Norsk Hydro. Hann sagði að þar hefði komið fram að greina hefði átt frá því ef einhverjar breytingar yrðu í viðræðum fyrir 1. september. Hann sagði hins vegar að fyrstu vísbendingar um hik hefðu komið fram í lok febrúar, en þá hefðu hafist viðræður um hvort lengja bæri fyrrnefndan frest og til hversu langs tíma. Hjálmar sagði að skilaboð Norsk Hydro hefðu verið misvísandi, en svo hefði komið í ljós að fyrirtækið hefði óskað eftir lengri fresti hinn 19. mars. „Þetta er eðlilegt ferli í viðskiptum, en það er skoðun nefndarinnar að eðlilegt hefði verið að hún hefði fengið að vita af því hiki í trúnaði. Staðreyndin er hins vegar sú að enginn hefur sagt ósatt í þessu máli." Þingmenn VG lýstu því yfir að þær skýringar sem iðnaðarnefndin hefði fengið væru ekki fullnægjandi en Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að flokkur sinn sætti sig við skýringarnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert