Jákvæð ákvörðun í fyrsta lagi tekin í árslok 2003

Frá fundinum á Reyðarfirði í gærkvöldi.
Frá fundinum á Reyðarfirði í gærkvöldi. mbl.is/Þorkell

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra tilkynnti á fundi um nýja stöðu í virkjunar- og stóriðjumálum á Austurlandi um skipun nefndar sem ætlað er að fara í könnunarviðræður við nýja fjárfesta í álveri og er ætlað að ljúka vinnu sinni sem fyrst. Um fjögur hundruð manns sóttu fundinn sem haldinn var í íþróttahúsinu á Reyðarfirði í gærkvöld.

Iðnaðarráðuneytið og samtök sveitarfélaga á Austurlandi stóðu í sameiningu að fundinum í kjölfar frétta um að Norsk Hydro treysti sér ekki til að standa við þann tímaramma sem Noral-verkefninu hafði verið settur.

Formaður nefndarinnar um könnunarviðræðurnar er Finnur Ingólfsson, seðlabankastjóri og fyrrverandi iðnaðarráðherra, auk hans eiga Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Kristján Skarphéðinsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, sæti í nefndinni.

Valgerður sagði að allri vinnu yrði flýtt sem kostur er og að nefndinni væri ætlað að skila niðurstöðum sem allra fyrst, þó væri erfitt að segja til um hversu langan tíma kynningarviðræðurnar muni taka.

Fjögur fyrirtæki koma helst til greina

Iðnaðarráðherra sagði að fjögur fyrirtæki komi einkum til greina, Alcoa sem er stærsta álfyrirtæki í heimi, Alcan eigandi Ísal, Pechiney og BHP Billiton. Einnig hafi Rússar sett á fót fyrirtæki á Íslandi í samvinnu við Íslendinga um uppbyggingu álvers á Íslandi. Sömuleiðis sagði hún að samvinna við fyrirtækið Noralda og samvinnuverkefni margra minni fyrirtæki komi til greina.

Valgerður sagði að komi fram áhugaverðari kostur en Norsk Hydro muni samstarfi við það hætt. Valgerður sagði að áður en fréttir bárust af því að Norsk Hydro yrði að fresta ákvarðanatöku, hafi samningar verið í höfn við stórt og öflugt fyrirtæki sem hafi verið tilbúið að koma að verkefninu á móti Hydro sem eignaraðili upp á tugi prósenta. Í samtali við Morgunblaðið var Valgerður ekki tilbúin að gefa upp hvaða fyrirtæki væri um að ræða, en sagði að áfram yrði rætt við forráðamenn þess um aðild að verkefninu. Valgerður sagði á fundinum að áfram yrði unnið af kappi við að koma Noral-verkefninu í höfn og mikilvægt væri að nota þann tíma sem nú skapast til að tryggja að verkefnið verði að veruleika. Hún sagði mikilvægt að Alþingi samþykki virkjunarleyfi, en í dag verður leyfið til umræðu á Alþingi.

Agnar Olsen, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, sagði að hætt hefði verið við megnið af þeim framkvæmdum sem fram áttu að fara á svæðinu í sumar, sem áttu að kosta um 300 milljónir króna, og eins verði gerð stíflu og aðrennslisganga, sem átti að hefjast í haust, slegið á frest. Áfram verði þó unnið að gerð útboðsgagna og svæðið vaktað.

Vinnan nýtist í komandi samningaviðræðum

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls, sagðist telja að Norsk Hydro hefði lagt milli 400 og 500 milljónir króna í Noral-verkefnið sem sýndi að Norðmönnum væri full alvara með því. Hann sagðist telja að mikið af þeirri vinnu sem lokið væri gæti nýst í samningaviðræðum við aðra aðila, þó hugsanlega yrði að taka einhvern hluta samninganna upp að nýju og jafnvel vinna að hluta nýtt mat á umhverfisáhrifum með nýjum forsendum þar sem samþykkt mat miðaði við tækni sem Hydro hefur í boði. Geir sagðist telja að í fyrsta lagi í lok ársins 2003 geti menn átt von á jákvæðri ákvörðun.

Smári Geirsson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, sagði mikilvægt að það millibilsástand, sem nú hefði skapast, yrði nýtt til að búa austfirskt samfélag undir framtíðina. Þannig væri mikilvægt að vinna að þeim samgönguframkvæmdum sem fyrirhuguð eru á svæðinu, auk þess að vinna að uppbyggingu mennta- og heilbrigðismála.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður Austfirðinga, sagði ánægjulegt að sjá hversu margir Austfirðingar væru mættir á fundinn til að sýna samstöðu. Hann sagði ekkert hafa breyst í stefnu stjórnvalda hvað uppbyggingu stóriðju varðar og áfram verði því unnið að verkefninu.

Austfirðingar, sem tóku til máls, sögðu fréttirnar um frestun koma illa við marga. Þeir lögðu áherslu á að unnið verði að því að álver rísi í Reyðarfirði sem allra fyrst og sögðust telja mikilvægt að tíminn verði nýttur til að vinna að uppbyggingu í fjórðungnum. Þannig verði göng grafin milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar sem allra fyrst. Fyrirspurn kom um hvort fullreynt hefði verið að Norsk Hydro gæti ekki staðið við tímarammann og sagði Valgerður svo vera. Sögðust Austfirðingar treysta stjórnvöldum, Landsvirkjun og Hæfi til að vinna að framgangi málsins og koma því í höfn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert