Álver í Reyðarfirði: Leitað verður nýrra samstarfsaðila

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra í ræðustóli á Alþingi.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Ásdís

Norsk Hydro hefur tilkynnt samstarfsaðilum sínum í Noral-verkefninu að fyrirtækið treysti sér ekki til að taka endanlega ákvörðun um framhald verkefnsins fyrir 1. september næstkomandi eins og gert er ráð fyrir í sameiginlegri tilkynningu sem tengdist yfirlýsingu um Noral-verkefnið á sínum tíma. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra las á Alþingi í dag. Hún lýsti því yfir að þeir sem að Noral-verkefninu koma séu sammála um að nú sé ákjósanlegt að fá nýjan aðila að Reyðaráli og þannig minnka eignarhlut íslenskra fjárfesta. Í þeirri vinnu sem er framundan verður því einnig skoðuð aðkoma fleiri aðila að málinu, sagði ráðherra.

Yfirlýsingin sem iðnaðarráðherra las úr ræðustóli Alþingis er svohljóðandi: "Noral-verkefnið um byggingu álvers á Austurlandi og tilheyrandi orkumannvirkja hefur gengið vel og í samræmi við markmið sem sett voru um að ljúka undirbúningsvinnu fyrir endanlega ákvörðun eigi síðar en 1. september 2002. Undirbúningsvinnan hefur rennt frekari stoðum undir trúverðugleika verkefnisins og niðurstöður hagkvæmniathugana eru uppörvandi. Engu að síður hefur Hydro tilkynnt samstarfsaðilum sínum að fyrirtækið sé ekki í aðstöðu til þess að taka endanlega ákvörðun varðandi áframhald verkefnisins fyrir 1. september 2002 eins og gert er ráð fyrir í sameiginlegri tilkynningu sem tengdist yfirlýsingu um Noral verkefnið. Ástæða þessarar ákvörunar Hydro er einvörðungu sú að fyrirtækið þarf lengri tíma til að meta fjárfestingarstefnu sína til næstu ára í kjölfar kaupa þess á þýska fyrirtækinu VAW. Þessi þörf fyrirtækisins fyrir stefnumarkandi endurmat tengist ekki á nokkurn hátt mati á arðsemi Noral verkefnisins. Í ljósi þessa munu aðilar að yfirlýsingunni halda áfram að starfa að verkefninu með það að markmiði að ákvarða endurnýjaða tímaáætlun. Þátttakendur í Reyðaráli eru sammála um að það væri ákjósanlegt að fá nýjan aðila að Reyðaráli og þannig minnka eignarhlut íslenskra fjárfesta. Í þeirri vinnu sem er framundan verður því einnig skoðuð aðkoma fleiri aðila. Sú vinna mun taka aukinn tíma, sem erfitt er að setja nákvæm tímamörk. Þetta millibilsástand dregur fram í dagsljósið ólíka ahgsmuni. Hagsmunir íslenskra yfirvalda og Landsvirkjunar hvað varðar tímasetningar fara ekki saman við hagsmuni fjárfesta í sjálfu álverinu. Það er því skilningur þeirra sem standa að Noral verkefninu að ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun hafi rétt til að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu þangað til núverandi aðilar hafa komið sér saman um nýja formlega yfirlýsingu. Þetta breytir hins vegar ekki þeim áformum allra samstarfsaðila að ganga eins skjótt og verða má frá vinnuáætlun til að ná endanlegri ákvörðun í Noral-verkefninu. Í samræmi við þetta verður fundir í júníbyrjun þar sem staða mála verður endurmetin." Noral-verkefnið slegið af Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs sagði, í framhaldi af yfirlýsingu ráðherrans, deginum ljósara að verið væri að slá Noral-verkefnið af. "Hér er ekki bara verið að fresta tímaáætlun. Það er engin tímaáætlun eftir." Hann sagði samstarfinu slitið í þeim skilningi "að Norsk Hydro fellst á að ríkisstjórn megi leita að nýjum samstarfsaðila," sagði Steingrímur, og bætti við: "Næsti fundur í júní, eftir tvo og hálfan mánuð." Steingrímur sagði: "Það er óþarft að eyða meiri tíma í að ræða frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og við getum snúið okkur að öðrum verkum. Og meðal annars því og ekki síst því að ræða þegar í stað þær mótvægisaðgerðir sem gripið verði til eystra. Nú þarf að gera áætlun um að hraða samgönguframkvæmdum og grípa til fleiri aðgerða til að tryggja að þessi fjórðungur verði ekki fyrir áfalli í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nú er, hafandi beðið eftir þessu bjargræði og bundið við það óraunhæfar vonir eins og niðurstaðan nú, sem liggur fyrir, sýnir." Ráðherra sagði í framhaldi af þessu, að hún teldi þingmanninn hafa verið aðeins of fljótan á sér að gleðjast, "því það er ekki búið að slá Noral verkefnið af. Það verður haldið áfram að vinna að því en það sem ég tel mikilvægt og lét koma fram áðan, er að við getum líka talað við aðra aðila." Og hún bætti við, þar sem þingmaðurinn talaði um samgönguaðgerðir og framkvæmdir að það væru vissulega mikilvæg mál, en fólk þyrfti að búa í fjórðungnum til að nýta þau samgöngumannvirki sem væntanlega verða byggð upp. Valgerður sagði Steingrím hafa lýst því yfir á fundi sem þau voru á saman að vel yrði hægt að lifa með þessum framkvæmdum. "Hann sagði það á fundi með sveitarstjórnamönnum úr Norðausturkjördæmi að það yrði vel hægt að lifa með þessum framkvæmdum öllum og ég vona að hann standi við þau orð." Steingrímur J. Sigfússon sagðist geta endurtekið þessi orð sín. "Auðvitað hefðu menn lifað með þessum framkvæmdum þó þær hefðu orðið og ég hef aldrei haldið því fram eða nokkur maður að menn tækju upp á því að deyja í stórum stíl, falla eins og mýflugur, þó farið yrði í þessar framkvæmdir, en það er líka hægt að lifa án þeirra og það er það verkefni sem snýr að okkur núna. Og menn hefðu fyrr mátt gera ráð fyrir þeim möguleika að sú yrði niðurstaðan. Þess vegna fagna ég þeim orðum iðnaðar- og viðskiptaráðherra að ríkisstjórnin sé tilbúin til þess að fara nú í að skoða aðgerðir eystra, hraða samgönguframkvæmdum og öðru slíku." Þrýstingur íslenskra stjórnvalda Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði túlkun Steingríms J. lýsa óskhyggju þeira sem eru á móti verkefninu. "Yfirlýsing inðanarráðherra skýrir stöðuna. Það sem í henni felst er, í fyrsta lagi, að þeir aðilar sem koma að Noral verkefninu eru sammála um að þar sé um arðbært verkefni að ræða. Í öðru lagi kemur þar fram að Norsk Hydro vill halda áfram viðræðum á grundvelli samningsdraga sem þegar liggja fyrir en telja sig þurfa lengri tíma til þess meðan þeir melta miklar fjárfestingu frá Þýskalandi. Og í þriðja lagi felur yfirlýsingin í sér að íslensk stjórnvöld hafa greinilega beitt þrýstingi til að hleypa öðrum aðilum að þessu samningaborði og setja þar með enn frekari þrýsting á Norsk Hydro." Valgerður sagði, í tilefni orða Steingríms J. Sigfússonar, ekkert launungarmál að hún hefði orðið fyrir vonbrigðum með Norsk Hydro og það kæmi íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu að fyrirtækið skyldi koma svona fram á þessu stigi málsins. "Og það er tilfellið - eins og sagt var hér utan úr sal, að þeir geta verið erfiðir þessir Norðmenn," sagði ráðherra. Hló þá þingheimur dátt, en eiginmaður Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er norskur sem kunnugt er. Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar á Austurlandi, tók undir með iðnaðarráðherra að vissulega hlyti ákvörðun Norsk Hydro að vera vonbrigði. "Því er auðvitað ekki að neita að það lá áður fyrir yfirlýsing frá Norsk Hydro að fjárfestingar þeirra í hinu þýska fyritæki myndu ekki hafa áhrif á verkefni þeirra hér á landi. Því kemur því nú verr og miður í ljós að þær fjárfestingar hafa áhrif. Þetta er að sjálfsögðu vonbrigði vegna þess að búið er að eyða miklum tíma í þetta samstarf." Valgerður Sverrisdóttir kvaðst hafa velt því fyrir sér undanfarið hvort öll þau ár, sem farið hafa í viðræður við Norsk Hydro, séu til ónýtis en svaraði spurningunni neitandi; svo væri alls ekki. "Það hefur þó tekist á þessum árum að undirbúa málið þannig að við höfum, hvað varðar íslenskt stjórnvöld og Landsvirkjun, verið að standa okkur mjög vel og þar er í sjálfu sér allt klárt frá okkar hálfu. Þá gerist það að fjárfestarnir eru ekki tilbúnir að standa við tímaáætlanir þannig að mér finnst nú, svo maður reyni að horfa á jákvæðu hliðarnar, að það sé alls ekki hægt að tala um það að þessi tími hafi verið til einskis og í rauninni, vegna þess hve Landsvirkjun þarf að vera langt á undan uppbyggingu álverksmiðjunnar, þá er ekki útilokað að tímaramminn þurfi ekki að breyast svo mjög mikið. Það er ekki fyrr en á árinu 2004 sem hægt er að tala um að fjárfestarnir þurfi að fara að leggja fram fjármuni til álversins sjálfs."
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert