Enginn fundur boðaður

Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls, segir að ekki hafi verið boðað til fundar með stjórnendum Norsk Hydro en það sé reiknað með að málið muni skýrast á næstu dögum, meira sé ekki hægt að segja að svo stöddu.

Jon-Harald Nielsen, forstjóri Hydro Aluminium, Norsk Hydro, segir í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten að Norsk Hydro hafi ekki áhuga á frekari kaupum (oppkjöp) í áliðnaði á meðan verið er að samhæfa rekstur Hydro og þýska álframleiðandans VAW. Blaðamaður Aftenposten sagði í samtali við Morgunblaðið að spurt hefði verið um möguleg kaup á starfandi fyrirtækjum í áliðnaði en ekki hefði verið rætt um nýfjárfestingar í viðtalinu.

Jon-Harald segir í Aftenposten að enn sé ekki komin nein niðurstaða í deilunni um valsafyrirtækið Alu-Norf sem er í helmingseigu VAW og Alcan en stjórnendur Alcan telja sig eiga forkaupsrétt að bréfum VAW í Alu-Norf og hafa höfðað mál fyrir þýskum dómstólum. Jon-Harald segist öruggur um að Norsk Hydro muni halda sínum hlut í Alu-Norf en vonast jafnframt til þess að ná samkomulagi við Alcan áður en málið kemur til kasta þýskra dómstóla.

Reiknuð heildarfjárfesting 273 milljarðar íslenskra króna

Nokkuð misjafnar upphæðir hafa verið nefndar í fjölmiðlum um fjárfestingu Norsk Hydro vegna yfirtökunnar á VAW. Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu nemur reiknað kaupverð (próforma verð) á hlutabréfum Hydro í VAW, miðað við að kaupin eigi sér stað í upphafi ársins, 166,6 milljörðum íslenskra króna, þá yfirtekur Hydro skuldir að upphæð 66,8 milljarða króna og lífeyrisskuldbindingar að upphæð 39,7 milljarða en samtals gera þetta því um 273 milljarða íslenskra króna.

Kanadíska álfyrirtækið Alcan er næststærsti álframleiðandi í heiminum, á undan Norsk Hydro, en bandaríska fyrirtækið Alcoa er stærsti álframleiðandinn. Töluvert hefur verið rætt um möguleg kaup álrisa á smærri álfyrirtækjum í fjölmiðlum. Má í því sambandi benda á að Alcoa á 40% hlut í norska félaginu Elkem, sem á Íslenska járnblendifélagið, og er talið að stjórnendur Alcoa hafi enn hug á að eignast meirihlutann í félaginu en Alcoa gerði yfirtökutilboð í janúar og bauð þá 155 norskar krónur á hlut en sérfræðingar töldu eðlilegt verð vera nær 200 krónum á hlut.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert