Norsk Hydro vill fresta álveri NORSK...

Norsk Hydro vill fresta byggingu álvers á Reyðarfirði. Forráðamenn fyrirtækisins hafa gefið íslenskum stjórnvöldum það til kynna og jafnframt að þeir séu ekki reiðubúnir að setja fram nýja tímaáætlun. Ekki er vitað hversu lengi þeir vilja fresta framkvæmdum en ráðgert var að taka ákvörðun um byggingu álvers með haustinu.

Banaslys í umferðinni orðin 9

TVÖ banaslys urðu í umferðinni. Annars vegar lést 12 ára stúlka í árekstri tveggja jeppa og fólksbíls ofarlega í Lögbergsbrekku á Suðurlandsvegi. Hins vegar lést 69 ára karlmaður er bíll hans lenti í árekstri við gámaflutningabíl við Móa á Kjalarnesi. Það sem af er árinu hafa orðið níu banaslys í umferðinni. Öll urðu þau utan þéttbýlis.

Eimskip eykur hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum

EIMSKIP hefur aukið hlut sinn í Útgerðarfélagi Akureyringa í 55,3% og Skagstrendingi í 40,7%. Kaupverð hins aukna hlutar er samanlagt um 1,4 milljarðar króna. Kaupin hafa í för með sér breytingu á skipulagi Eimskips sem verður nú rekið á þremur meginsviðum: flutningastarfsemi, fjárfestingum og sjávarútvegi.

Alvarlegt flugatvik rannsakað

FLUGATVIK við Gardermoen-flugvöll norðan við Osló 22. janúar er Flugleiðaþota hætti skyndilega við lendingu og tók aukahring er til rannsóknar hjá Rannsóknastofnun flugslysa í Noregi. Atvikið er talið alvarlegt en þotan var nálægt 300 fetum frá jörðu þegar hún hækkaði flugið á ný.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert