Tillaga að starfsleyfi álvers Reyðaráls auglýst

Hollustuvernd ríkisins hefur auglýst tillögu að starfsleyfi Reyðaráls hf. fyrir allt að 420.000 tonna álver í Reyðarfirði. Er hægt er að gera skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillöguna til 8. febrúar 2002.

Tillagan er til kynningar á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar á Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað og einnig á heimasíðu Hollustuverndar. Að loknum athugasemdafrestinum hefur Hollustuvernd fjórar vikur til að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins, þannig að niðurstaða varðandi starfsleyfi álversins ætti að liggja fyrir eigi síðar en 15. mars 2002. Reyðarál hf. sótti formlega um starfsleyfi 14. nóvember sl. en undirbúningur starfsleyfisvinnunnar fór fram samhliða vinnu við undirbúning á mati á umhverfisáhrifum álversins. Í greinargerð Hollustuverndar með starfsleyfistillögunni kemur fram að taka skuli fullt tillit til niðurstöðu úr matsferli við gerð starfsleyfis. Því sé tillagan með þeim fyrirvara að taka þurfi inn í hana öll þau atriði sem úrskurður ráðherra kunni að breyta en úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum álversins var kærður til umhverfisráðherra. Heimasíða Hollustuverndar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert