ASÍ lýsir stuðningi við áform um byggingu álvers í Reyðarfirði

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsti í dag stuðningi við áform um byggingu álvers við Reyðarfjörð og virkjanaframkvæmdir á Austurlandi. Í ályktun miðstjórninnar, sem hélt í dag fund á Egilsstöðum, er lögð áhersla á, að þessi framkvæmd sé afar mikilvæg fyrir uppbyggingu atvinnu og lífskjara launafólks bæði á Austurlandi og um land allt.

Í ályktuninni segir, að forsendur aukins hagvaxtar og bættra lífskjara á næstu árum sé stöðug og viðvarandi aukning útflutningstekna. Til þess að svo megi verða telji miðstjórnin mikilvægt að nýta allar auðlindir til lands og sjávar með skynsamlegum hætti. Í samræmi við þessa grundvallarskoðun sé mikilvægt að nýta þá orku sem landsmenn búa að til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi. „Miðstjórn ASÍ telur, að við mat á umhverfisáhrifum virkjana- og stóriðjukosta sé mikilvægt að fara að lögum og leikreglum sem gilda um slíkt mat. Augljóst er að allir slíkir kostir munu með einum eða öðrum hætti hafa áhrif á náttúrufar, mannlíf og efnahagslíf. Því er afar mikilvægt við undirbúning slíkra framkvæmda að unnið sé með opnum, faglegum og lýðræðislegum hætti að mati á þessum þáttum, þar sem leitast sé við að draga fram sem heildstæðasta mynd af áhrifunum. Aðeins með þeim hætti er hægt að leggja grunn að sem víðtækastri sátt um niðurstöðuna. Miðstjórn ASÍ telur mikilvægt að tekið verði tillit til þensluáhrifa framkvæmdanna á byggingartímanum. Vegna umfangs þessarar fjárfestingar er nokkur hætta á að verðbólga aukist og/eða raungengi hækki sem aftur dregur úr samkeppnishæfni annarra útflutnings- og samkeppnisgreina. Miðstjórn ASÍ leggur áherslu á að samhliða uppbyggingu stóriðju á Austurlandi verði gert ráð fyrir því við skipulagningu virkjanakosta að afkastageta orkuveranna sé 10-15% meiri en bein þörf viðkomandi stóriðju. Þessari viðbótarorku verði ráðstafað á alþjóðlega samkeppnishæfu verði til uppbyggingar atvinnulífsins. Ennfremur er mikilvægt að styrkja stoðir ýmissa þjónustugreina á svæðinu til þess að þær verði í stakk búnar til að mæta aukinni eftirspurn, m.a. með sérstöku átaki í starfs- og endurmenntun. Með þeim hætti er hægt að stuðla að aukinni fjölbreytni í uppbyggingu atvinnulífsins," segir í ályktuninni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert