Hópur frá Norsk Hydro skoðar aðstæður í Reyðarfirði

Átta manna hópur verkfræðinga, hagfræðinga og annarra sérfræðinga norska fyrirtækisins Norsk Hydro hefur kynnt sér aðstæður á Austurlandi síðustu daga vegna fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda á svæðinu.

Skoðuðu þeir m.a. aðstæður á Kárahnjúkasvæðinu á þriðjudag og fóru um fyrirhugað iðnaðarsvæði við Hraun í Reyðarfirði í gær í fylgd Geirs A. Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Reyðaráls, sameiginlegs framkvæmdafyrirtækis Hydro Aluminium og Hæfis hf. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem starfsmenn Norsk Hydro koma hingað til lands til að kynna sér aðstæður á Austfjörðum vegna Reyðarálsverkefnisins.

Bjarne Reinholdt, framkvæmdastjóri Reyðaráls, segir tilganginn þann að kynna svæðið fyrir því starfsfólki Norsk Hydro sem sé að vinna að Reyðarálsverkefninu. "Í þessum hópi eru menn sem hafa unnið mikið að þessu verkefni. Það er nauðsynlegt fyrir þá að sjá betur aðstæðurnar á Austurlandi," sagði Reinholdt í samtali við Morgunblaðið um hádegisbil í gær. Var þá hópurinn á leið til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem ætlunin var að kynna sér þá starfsemi sem þar fer fram.

Reinholdt segir aðspurður að ekki hafi dregið úr áhuga forsvarsmanna Norsk Hydro á Reyðarálsverkefninu þótt ákveðið hafi verið að fresta tímamörkum á lokaákvörðun vegna byggingar álvers í Reyðarfirði og virkjunar við Kárahnjúka til 1. september nk. "Þessi frestun hefur engin áhrif á áhugann á verkefninu," segir hann. "Áhuginn er jafnmikill og áður," ítrekar hann.

Beðið eftir Kárahnjúkavirkjun

Reinholdt segir að unnið hafi verið að verkefninu af fullum krafti síðustu mánuði og að því starfi verði haldið áfram þrátt fyrir frestunina. Búið sé að ganga frá ýmsum atriðum varðandi verkefnið en vilyrði fyrir fjármögnun geti þó ekki legið fyrir fyrr en orka til álversins hafi verið tryggð. "Eins og kunnugt er hefur Landsvirkjun ekki fengið heimild til framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun vegna umhverfisáhrifa. Á meðan þessi heimild er ekki fyrir hendi er erfitt fyrir okkur að biðja banka um að fjármagna verkefnið," segir hann. "Við getum því ekki tekið upp frekari samningaviðræður við bankana fyrr en Landsvirkjun fær heimild til að hefja framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun," segir hann ennfremur og bendir á að úrskurður Skipulagsstofnunar um að leggjast gegn Kárahnjúkavirkjun hafi átt sinn þátt í því að ákveðið hafi verið að fresta tímamörkum lokaákvörðunar um álver í Reyðarfirði.

Gert er ráð fyrir því að hópurinn haldi heim á leið til Noregs í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert