Skilyrði sett vegna verulegrar mengunar

Fyrirhuguð bygging álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði er stærsta framkvæmd sinnar tegundar hér á landi hingað til. Eiríkur P. Jörundsson kynnti sér úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum álversins.

Skipulagsstofnun hefur fallist á byggingu allt að 420.000 tonna álvers og 233.000 tonna rafskautaverksmiðju við Reyðarfjörð í Fjarðabyggð. Að mati stofnunarinnar verður umtalsverð mengun af álverinu og rafskautaverksmiðjunni og fylgja úrskurðinum því tvö skilyrði.

Annars vegar að búseta verði ekki innan skilgreinds svæðis, svokallaðs þynningarsvæðis, við álverið og rafskautaverksmiðjuna og hins vegar að sett verði upp umhverfisvöktun þar sem fylgst verði með styrk PAH-efna í lofti, ákomu slíkra efna á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða.

Þá telur Skipulagsstofnun að rekstur álverksmiðju í Reyðarfirði muni hafa varanleg áhrif á íbúa- og byggðaþróun á Austurlandi. Stofnunin telur líklegt að rekstur álverksmiðju leiði til samþjöppunar byggðar á Austurlandi og þannig muni byggð í Fjarðabyggð og öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi styrkjast, hugsanlega að hluta til á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi. Að áliti Skipulagsstofnunar mun rekstur álversins hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi, sem m.a. verða fólgin í miklum fjölda nýrra starfa, en hins vegar leiki meiri vafi á því hver áhrifin verði á aðrar atvinnugreinar sem þá verði í samkeppni um vinnuafl.

Úrskurður Skipulagsstofnunar tekur til þeirra áforma Reyðaráls hf. að byggja og reka allt að 420.000 tonna álver ásamt allt að 223.000 tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði þar sem álver og rafskautaverksmiðja yrðu byggð í tveimur sjálfstæðum áföngum. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 240.000-280.000 tonna álframleiðslu á ári og í síðari áfanga stækkun í 360.000-420.000 tonna ársframleiðslu. Miðað er við að afköst rafskautaverksmiðju í fyrsta áfanga verði 167.000 tonn á ári af rafskautum og afköstin verði aukin í 223.000 tonn á ári í öðrum áfanga.

Veruleg aukin mengun vegna rafskautaverksmiðjunnar

Fyrirhugað er að staðsetja álverið og rafskautaverksmiðjuna á iðnaðarsvæði á jörðunum Hrauni og Sómastaðagerði við norðanverðan Reyðarfjörð, um 5 km austur af þéttbýlinu við Reyðarfjörð. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist haustið 2003 og fyrsti áfangi verði komin í full afköst árið 2006. Bygging 2. áfanga myndi hefjast árið 2010 og rekstur hans árið 2012.

Álverið í Reyðarfirði mun verða það stærsta sinnar tegundar sem ráðist hefur verið í að byggja hér á landi og rafskautaverksmiðjan sú fyrsta sinnar tegundur hérlendis. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að loftmengun í Reyðarfirði muni aukast verulega með tilkomu 1. áfanga, enda séu loftgæði mikil í firðinum. Sú verði einnig raunin með fyrirhuguðum 2. áfanga, þ.e. allt að 420.000 tonna álveri og 233.000 tonna rafskautaverksmiðju.

"Athugun Skipulagstofnunar hefur leitt í ljós að starfsemi rafskautaverksmiðju muni valda allt að fjórum sinnum meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs og tæplega 100 sinnum meiri útblæsti PAH-efna en starfsemi álvers ein og sér," segir í úrskurði Skipulagsstofnunar.

Fullnægjandi grein gerð fyrir umhverfisáhrifum

Reyðarál hefur kynnt framkvæmdir með þeim hætti að rekstur álvers af fyrrgreindri stærðargráðu sé ekki hagkvæmur án rafskautaverksmiðju og því sé ekki hægt að skilja á milli þessara þátta framkvæmdarinnar. Í úrskurði Skipulagsstofnunar segir hins vegar að stofnunin telji að umfjöllun um rafskautaverksmiðju og áhrif hennar í matsskýrslu Reyðaráls hf. hefði mátt vera ítarlegri þar sem slík verksmiðja hafi í för með sér mikla losun mengunarefna til viðbótar við mengun frá álverinu.

Nákvæmir útreikningar á loftdreifingu mengandi efna hafa verið lagðir fram sem reiknaðir voru á grundvelli veðurmælinga í Reyðarfirði árin 1998-2000. Skipulagsstofnun telur að gerð hafi verið fullnægjandi grein fyrir umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda en telur ekki útilokað að skapast geti óhagstæðari veðurfarsskilyrði en þau sem lögð voru til grundvallar útreikningum og spám um dreifingu mengandi efna í andrúmslofti.

"Miðað við þessa óvissu í forsendum dreifingarspár, upplýsingar sem settar eru fram í framlögðum gögnum Reyðaráls hf., umsagnir Hollustuverndar ríkisins og Veðurstofu Íslands og ákvæði í frumdrögum að starfsleyfi Reyðaráls hf. telur Skipulagsstofnun ljóst að töluverðar líkur séu á því að styrkur brennisteinsdíoxíðs geti náð heilsuverndarmörkum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 1999/30/EC á þynningarsvæði verksmiðjunnar en innan þess eru býlin Framnes og Hólmar," segir í úrskurði Skipulagsstofnunar.

Styrkur mengunarefna í sjó mun aukast verulega

Stofnunin telur að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að hægt sé að tryggja að mengun á Framnesi og á Hólmum verði undir heilsuverndarmörkum og því þurfi að leggja þar af búsetu ef til framkvæmda kemur.

Þá telur Skipulagsstofnun nauðsynlegt að fylgjast vel með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis og að settir verði upp sjálfvirkir mælar og tryggt verði að almenningur fái upplýsingar og aðvaranir fari styrkur brennisteinsdíoxíðs yfir viðmiðunarmörk, samkvæmt íslenskum reglugerðum og tilskipun Evrópusambandsins.

Skipulagsstofnun telur tillögu Reyðaráls hf. viðunandi um afmörkun þynningarsvæðis fyrir báða áfanga álvers og rafskautaverksmiðju, enda verði ekki um búsetu að ræða á svæðinu. Á landi nær þynningarsvæðið frá vesturmörkum friðlands við Hólmanes í austri að Hagalæk í vestri, en Hagalækur og friðlandið í Hólmanesi eru í um 2,6 km fjarlægð hvort í sinni áttinni frá kerskálum verksmiðjunnar. Hagalækur er í rúmlega km fjarlægð frá þéttbýlinu í Reyðarfirði. Þynningarsvæðið afmarkast auk þess frá sjávarlínu upp í allt að 100 km hæð yfir sjó austan til og í um 200 m hæð vestan til, en samtals er svæðið um 6 ferkílómetrar.

Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar kemur fram að með tilkomu 1. áfanga framkvæmda og urðunar allt að 6.750 kerbrota muni styrkur mengunarefna í sjó í Reyðarfirði aukast verulega frá því sem nú er. Þar yrði einkum um að ræða aukið magn svokallaðra PAH-efna, en það eru fjölhringa arómatísk kolvetnissambönd sem eru skaðleg lífverum.

"Það á sérstaklega við um magn PAH-efna frá vothreinsun, en styrkur þeirra verður yfir ströngustu norsku mörkum á um 500 m breiðu belti undan iðnaðarlóðinni. Styrkur B(a)P í seti mun verða yfir bakgrunnsgildum í firðinum á um 10 km löngu svæði í Reyðarfirði. Með tilkomu 2. áfanga álvers með allt að 420.000 tonna ársframleiðslu, rafskautaverksmiðju með allt að 233.000 tonna ársframleiðslu og urðun allt að 10.080 tonna af kerbrotum mun styrkur PAH-efna frá vothreinsun verða yfir ströngustu norsku mörkum á um 500 m breiðu belti undan iðnaðarlóðinni og styrkur B(a)P í seti verða yfir bakgrunnsgildum í stærstum hluta Reyðarfjarðar."

Leggja þarf búskap af innan þynningarsvæðis álversins

Að mati Skipulagsstofnunar eru tillögur Reyðaráls hf. viðunandium afmörkum þynningarsvæðis í sjó fyrir 1. og 2. áfanga framkvæmda. Samkvæmt því þarf þynningarsvæði í sjó að ná yfir um 500 m breitt belti meðfram stöndinni undan iðnaðar- og hafnarsvæðinu, en stærð svæðisins í sjó er miðuð við kröfur í norskum viðmiðunarreglum fyrir styrk PAH og B(a)P í seti. Skipulagsstofnun telur nauðsynlegt að sett verði í gang vöktun á styrk PAH í lofti, jörð, sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða, þannig að ganga megi úr skugga um að öll skilyrði og viðmið sem íslensk stjórnvöld setji verði uppfyllt til frambúðar.

Þrátt fyrir að mengun muni aukast verulega í andrúmslofti og sjó í Reyðarfirði telur Skipulagsstofnun að hægt verði að uppfylla gildandi kröfur í íslenskum reglugerðum, þar sem þær liggja fyrir, kröfur í væntanlegri tilskipun Evrópusambandsins og aðrar viðmiðanir. Slíkt er þó háð því að búseta verði ekki leyfð innan þynningarsvæðis verksmiðjunnar þar sem ekki hafi verið hægt að sýna fram á að hægt verði að tryggja að mengun fari þar ekki yfir heilsuverndarmörk.

Skipulagsstofnun telur jafnframt ljóst að breytingar verði á gróðri á áhrifasvæði álversins þar sem ríkjandi eru tegundir sem eru viðkvæmar fyrir flúormengun. Því telur stofnunin að leggja eigi af búskap og beit innan þynnningarsvæðis álversins til að lágmarka áhrif flúors á búfénað. Hins vegar er talið að ekki sé ástæða til að vænta verulegra áhrifa á hreindýr og fugla af völdum byggingar og reksturs álversins, en Skipulagsstofnun varar við allri nýtingu á gæðum lands og sjávar umhverfis álverið.

"Skipulagsstofnun leggur áherslu á að forsvarsmenn Reyðaráls hf. og leyfisveitendur geri íbúum og öðrum aðilum sem nýta landsins gæði og sjávarfang í Reyðarfirði ljósa þá áhættu sem fylgir þeirri nýtingu, sérstaklega innan þynningarsvæðis verksmiðjunnar á landi og í sjó," segir í úrskurði stofnunarinnar.

Hefur jákvæð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi

Umhverfisáhrif álversins í Reyðarfirði eru að mati Skipulagsstofnunar margvísleg en þar vegi einkum tvennt þyngst á metunum. Annars vegar eru það áhrif á loft og sjó og hins vegar áhrif sem framkvæmdir og rekstur álversins hafa á samfélagið. Skipulagsstofnun telur að rekstur álverksmiðju í Reyðarfirði muni hafa varanleg áhrif íbúa- og byggðaþróun á Austurlandi. Jafnframt telur stofnunin að rekstur álversins muni leiða til samþjöppunar byggðar á Austurlandi og þannig muni Fjarðabyggð ásamt öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi styrkjast og þá hugsanlega á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi.

Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar segir að mikil uppsveifla verði í atvinnulífi á Austurlandi á byggingartíma álvers og hafnar. Vinnuaflsþörf vegna framkvæmda við byggingu álvers og hafnar er áætluð um 2.000 ársverk á um þremur árum og verða áhrifin mest næst álverinu, þ.e.a.s. í Fjarðabyggð. Þá er gert ráð fyrir að veturinn 2004-2005 verði um 800-1.000 manns að störfum við byggingu álversins og sumarið 2005 allt að 1.200-1.400 manns.

Veturinn 2005-2006 mun draga úr vinnuaflsþörfinni þar til að mestu verður búið að ljúka framkvæmdum vorið 2006. Gert er ráð fyrir að 40% starfsmanna verði innlendir aðkomumenn sem dvelji í vinnubúðum, 30% starfsmanna verði erlendir, 15% starfsmanna verði heimamenn og 15% starfsmenn sem flytja tímabundið inn á svæðið með fjölskyldur sínar.

Gangi þær áætlanir eftir, að 70% starfsmanna við framkvæmdir muni dvelja í vinnubúðum og að 15% þeirra verði heimamenn, er það álit Skipulagsstofnunar að áhrif á atvinnulíf á Austurlandi geti talist jákvæð, m.a. að því leyti að aðrar atvinnugreinar ættu að geta haldið sínu starfsfólki að mestu þar sem svo lágt hlutfall starfsmanna við byggingu álversins verða heimamenn.

Óljóst um aðgerðir vegna skorts á leiguhúsnæði

Þegar að rekstri álversins kemur er það mat stofnunarinnar að jákvæð áhrif verði fólgin í miklum fjölda nýrra starfa með tilkomu verksmiðjunnar. Hins vegar telur stofnunin meiri vafa leika á því hver áhrifin verða á aðrar atvinnugreinar, sem þá verða í meiri samkeppni um vinnuafl. Samkvæmt sérfræðiskýrslu Nýsis hf. er gert ráð fyrir að í kjölfar stækkunar álversins, sem áætlað er að ljúki árið 2012, skapist 154 störf til viðbótar við þau 454 ársverk sem til verða í 1. áfanga. Þannig munu í framtíðinni starfa um 610 manns í álverinu.

Að mati Skipulagstofnunar hefði mátt gera betur grein fyrir félagslegum áhrifum þess að mikill fjöldi aðkomufólks verður í Fjarðabyggð á byggingartíma álversins. Í niðurstöðum stofnunarinnar segir jafnframt að óljóst sé hvernig komið verði til móts við þörf á leiguhúsnæði til lengri eða skemmri tíma, en gengið er út frá því í matsskýrslu að sveitarfélögin og ríkisvaldið vinni að því í sameiningu að leysa það mál og er í skýrslunni ekki talin ástæða til að draga í efa að svo verði.

Í úrskurði sínum telur Skipulagsstofnun rétt að benda á að álverið í Reyðarfirði hafi verið kynnt sem hluti af Noral-verkefninu þar sem miðað er við að orka til álversins komi frá Kárahnjúkavirkjun og jarðvarmavirkjunum í Bjarnarflagi og við Kröflu. Lagst var gegn framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun í úrskurði Skipulagsstofnunar 1. ágúst sl. og telur stofnunin að sú niðurstaða geti hafi í för með sér verulega óvissu um það hvernig orku verði aflað fyrir álverið í Reyðarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert