Á að geta þrifist í góðri sátt við umhverfið

Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, segist ánægður með þessa niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi Reyðarál og að hann voni að þessi úrskurður sé traustur og vel unninn.

"Ég tel að hann sé líka eðlilegur. Ég hef mjög vel fylgst með umhverfismatinu og framkvæmd þess og hef fengið traustar upplýsingar um að þetta fyrirtæki eigi að geta þrifist hér í góðri sátt við umhverfið," sagði Smári.

Hann bætti því við að auðvitað bæri að hafa í huga að það væru miklu færri huglæg matsatriði sem snertu verksmiðjuna en virkjunina til dæmis og þess vegna væri það ef til vill einfaldara að taka afstöðu varðandi verksmiðjuna en virkjunina.

"Við höfum jákvæða niðurstöðu varðandi báða áfanga álversins og við höfum jákvæða niðurstöðu varðandi höfnina við álverið en hins vegar neikvæða niðurstöðu stofnunarinnar varðandi virkjun. Ég hef alltaf haldið því fram að það sé afar brýnt og nauðsynlegt að horfa á þetta verkefni í heild sinni og ég hef trú á því að það muni stjórnvöld í landinu gera þegar upp er staðið," sagði Smári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert