Áfall ef fólki yrði meinað að nýta orkulindirnar

Nokkrir þingmanna Austurlands benda á að virkjun við Kárahnjúka hafi ekki verið slegin af þrátt fyrir úrskurð Skipulagsstofnunar. Einn bendir á að umhverfisráðherra eigi síðasta orðið og annar að álver sé ekki lausn til frambúðar.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra bendir á að enn sé hægt að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar og telur hann það nauðsynlegt að málið fái að ganga sína leið. "Ég veit ekki hvernig það fer en hins vegar er það alveg ljóst að ef það er tilfellið að menn séu tilbúnir í að afskrifa alla virkjanakosti þarna fyrir austan og meina mönnum að nýta þessar orkulindir af umhverfisástæðum er það áfall fyrir fjórðunginn," segir hann en minnir á að auðvitað séu ýmsir aðrir kostir til í atvinnustarfsemi á Austurlandi.

Jóni virðist sem ekki séu miklar hömlur á því að byggja stóriðju eða nýta orkulindir hér á þessu svæði sem hafi dregið mesta fólkið til sín. Hann undrast að umræðan um það sé með allt öðrum hætti hér en hafi verið fyrir austan og það gangi Austfirðingum erfiðlega að skilja. "Menn eru náttúrulega mjög undrandi á þessum viðbrögðum og þeirri umræðu sem hefur verið um þessi mál hér, eða í fjölmiðlum almennt. En auðvitað er hluti af fólki á Austurlandi sammála því að nýta ekki orkulindirnar, þó að yfirgnæfandi meirihluti standi í forundran yfir þessu," bætir hann við.

Það vantar fleiri stoðir í atvinnulífið á Austurlandi

Að sögn hans hafa menn verið að reyna fyrir sér á Austurlandi í mörgum atvinnugreinum. Þar sé öflugur sjávarútvegur en hins vegar sé atvinnulífið einhæft og það hafi vantað fleiri stoðir í atvinnulífið þar. Hann telur að miklir möguleikar liggi í ferðaþjónustu og margir segi sem svo að ef ekki verði virkjað opnist allar gáttir í þeirri grein. Hann bendir hins vegar á að ferðaþjónustan sé árstíðabundinn atvinnuvegur á Austurlandi og menn hafi haft tækifæri til þess í tuttugu, þrjátíu ár að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu norðan Vatnajökuls. "Það er ekkert nýtt og ég er svo sem ekkert búinn að sjá það að ef þessu svæði verði breytt í þjóðgarð muni það gjörbreyta möguleikum í ferðaþjónustu," segir Jón og nefnir einnig tölvugeirann sem dæmi um upprennandi atvinnugrein á Austurlandi.

Hann segir að uppbygging atvinnugreina haldi auðvitað áfram en án álvers blasi hins vegar engar augljósar lausnir við. "Það eru engar lausnir í því að allir Austfirðingar fari að vinna í ferðaþjónustu ef það verður gerður þjóðgarður norðan við Vatnajökul þó að það myndi eitthvað örva ferðaþjónustuna. Ég er ekkert að útiloka það. Ég held að það sé alveg ósannað mál að það myndi skapa jafnmikil umsvif og Kárahnjúkavirkjun," segir Jón og bendir á að veltan í kringum svona umsvif sé mjög mikil og myndi gjörbreyta stöðu þessa landshluta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert