Vilja fá völd í samræmi við eignarhlut

Fulltrúar íslenskra fjárfesta, sem meta nú möguleika á aðild að byggingu álvers á Reyðarfirði í félagi við lánastofnanir og Norsk Hydro, hafa gert athugasemdir við samkomulag um aðkomu norska fyrirtækisins að starfsemi fyrirtækisins í framtíðinni. Fulltrúar Hæfis hf. funduðu með stjórnendum Hydro í Ósló um þessi mál fyrir um hálfum mánuði og eftir þann fund var ástandið metið svo viðkvæmt að Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar og formaður viðræðunefndar um stóriðjumál, hélt aftur nokkrum dögum síðar til Ósló til viðræðna um kröfur íslenskra fjárfesta. Eftir þann fund gætir meiri bjartsýni en áður.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur verið gengið út frá því að Norsk Hydro komi sem verksali að ýmsum lykilþáttum í starfsemi fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði. Þannig sé nánast kveðið á um yfirráð Hydro Aluminium yfir tækniuppbyggingu álversins, hráefniskaupum, markaðsstarfi og útflutningi. Íslenskir fjárfestar telja þetta of mikil ítök með tilliti til þess að ekki er ætlunin að Hydro eigi meirihluta í Reyðaráli, fyrirtækinu um rekstur álversins, heldur íslenskir fjárfestar í Hæfi hf.

Geir A. Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Hæfis, segir ljóst og nauðsynlegt að hafa í huga að ekki liggi fyrir endanlegir samningar við Hydro um alla þætti væntanlegrar samvinnu. Um þau mál sem standi enn út af borðinu sé verið að semja þessar vikurnar.

"Það liggur fyrir að Íslendingar vilja til lengri tíma litið hafa meira að segja um eignarhlut sinn og framleiðslu fyrirtækisins. Hins vegar er jafnljóst að til skemmri tíma litið verða að liggja fyrir samningar um sölu á málminum og útvegun hráefnis. Án þess er ekki hægt að fjármagna álverksmiðjuna," segir hann.

Úrskurðar skipulagsstjóra að vænta í dag eða á morgun

Úrskurðar Skipulagsstofnunar ríkisins vegna mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar er að vænta í dag eða á morgun.

Alls bárust um fjögur hundruð athugasemdir við umhverfismatið til skipulagsstjóra og stóð upphaflega til að úrskurður yrði felldur 13. júlí sl. Því var hins vegar frestað og er úrskurðarins nú beðið með mikilli eftirvæntingu, enda geta niðurstöðurnar haft áhrif á áform um uppbyggingu stóriðju á Austurlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert