Ekki óbrúanlegt bil milli aðila

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir viðræður við fulltrúa Norðuráls um orkuverð á byrjunarstigi. "Við höfum átt við þá viðræður og eigum von á því að þær haldi áfram um miðjan mánuðinn," segir hann.

Aðspurður um hvort Norðuráli sé boðið sambærilegt orkuverð og Reyðaráli segir Friðrik ljóst að ekki geti verið mikill munur þarna á milli. Ekkert hefur verið gefið út um orkuverðið og segir Friðrik það vera milli Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar.

Framkvæmdastjóri Norðuráls hefur sagt að enn beri nokkuð í milli aðila varðandi orkuverðið en Friðrik segir allt of snemmt að segja til um hvort samningar náist. "Á þessu stigi sýnist mér ekki vera óbrúanlegt bil milli hugmynda þeirra og okkar um verð," segir hann.

Norðurál áætlar stækkun úr 90 þúsund tonna álframleiðslu í 180 þúsund tonn og 60 þúsund tonn til viðbótar á síðari stigum. Til að útvega orku fyrir fyrri stækkunina áætlar Landsvirkjun annars vegar að virkja Tungnaá við Búðarháls, sem fengist hefur leyfi fyrir, og hins vegar að mynda lón við Norðlingaöldu, sem eftir á að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Einnig þarf að leita sérstaks leyfis þar sem hluti lónsins verður innan friðlýsts svæðis Þjórsárvera.

Óeðlilegt að Náttúruvernd myndi sér skoðun fyrirfram

Náttúruvernd ríkisins hefur sagt að hún muni ekki fallast á framkvæmdir við Norðlingaöldu. "Það er fullkomlega óeðlilegt að Náttúruvernd hafi fyrirfram skoðun á því máli því enn hefur ekki verið leitað leyfis og enn er ekki ljóst nákvæmlega í hverju framkvæmdin verður fólgin," segir Friðrik.

Náist ekki leyfi fyrir Norðlingaölduveitu á Landsvirkjun, að sögn Friðriks, ekki möguleika á því að útvega orku árið 2004 fyrir þessa stækkun. Það skýrist í byrjun næsta árs hvort leyfi fæst fyrir framkvæmdum.

Norðurál á einnig í viðræðum við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur, en ljóst er að þessi fyrirtæki geta ekki boðið nægjanlega orku árið 2004, þegar fyrri áfangi stækkunar Norðuráls á að vera kominn í gagnið.

Friðrik segir að þrjú ár séu ekki of skammur tími. "Við getum byrjað strax í sumar að undirbúa Búðarhálsinn með því að brúa Tungnaá og leggja veg að fyrirhuguðu stæði við stöðvarhúsið. Þannig gætum við strax á næsta ári byrjað á framkvæmdum við sjálfa virkjunina sem tekur þessi þrjú ár, 2002, 2003 og 2004."

Friðrik bendir á að framkvæmdir við Norðlingaöldulón muni taka styttri tíma, þar sem ekki þurfi að byggja stöðvarhús, eingöngu sé um stíflur og göng að ræða. "Svo munum við nota þær virkjanir sem eru nú þegar í rekstri í Tungnaánni," segir Friðrik.

Nýta þarf tímann vel að mati iðnaðarráðherra

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist gleðjast yfir því í hvaða farveg viðræður stjórnvalda og Landsvirkjunar við Norðurál um stækkun álversins á Grundartanga eru komnar.

"Það er augljóst að nota þarf tímann vel ef þau áform sem uppi eru um gangsetningu fyrsta áfanga stækkunarinnar eiga að geta gengið eftir. Óneitanlega er margt ekki komið í höfn ennþá," segir Valgerður. Hún vill ekki tjá sig um stöðu viðræðna um orkuverð við Norðurál, þær gerist á viðskiptagrundvelli fyrirtækja í milli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert