Gerð verði grein fyrir áhrifum rafskautaverksmiðju

Flestir þeir opinberu aðilar sem skilað hafa umsögn um fyrirhugað álver í Reyðarfirði fallast á framkvæmdina en gera einna helst athugasemdir við útblástur og frárennsli mengandi efna. Innan við tíu athugasemdir frá almenningi voru komnar til Skipulagsstofnunar í gær vegna álversins.

Þeir opinberu aðilar sem skilað hafa Skipulagsstofnun umbeðinni umsögn um matsskýrslu vegna fyrirhugaðs álvers í landi Hrauns í Reyðarfirði eru, auk Náttúruverndar ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Veðurstofan, Vegagerðin, Fjarðarbyggð, Heilbrigðiseftirlit Austurlands, Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Hafrannsóknastofnun, Þjóðminjasafnið, Siglingastofnun, Byggðastofnun og veiðimálastjóri. Tveir aðilar eiga eftir að skila sínum umsögnum, þ.e. Ferðamálaráð og veiðistjóri, sem fengu framlengdan frest. Frestur sem almenningur hefur til að gera athugasemdir við matsskýrsluna rennur út á miðnætti í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni voru innan við tíu athugasemdir komnar frá almenningi í gær.

Hollustuvernd gerir í sinni umsögn nokkrar athugasemdir og kemur með ábendingar vegna matsskýrslu Reyðaráls um álverið. Stofnunin áréttar að rafskautaframleiðsla, líkt og fyrirhuguð er hjá Reyðaráli, sé ný starfsemi á Íslandi og bent er á að í matsskýrslunni sé ekki heildstæð umfjöllun um áhrif rafskautaverksmiðjunnar á umhverfið. Telur Hollustuvernd að með sérstakri umfjöllun hefði mátt gera betur grein fyrir áhrifum slíkrar framleiðslu.

Þá telur Hollustuvernd að kanna þurfi áhrif vegna ákomu svokallaðra PAH-efna á snjó og afrennsli þaðan til sjávar. PAH-efni eru fjölarómatísk kolvetni sem myndast við rafgreiningu og framleiðslu forskauta og eru talin krabbameinsvaldandi. Hollustuvernd leggur til að skipulögð verði vöktun með styrk og uppsöfnun PAH-efna umhverfis álverið, fylgjast þurfi reglulega með heilsufari dýra á svæðinu og bændum í nágrenninu verði rækilega kynntar afleiðingar flúormengunar innan þynningarsvæðisins á búpening. Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis viðkomandi atvinnureksturs kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.

Brennisteinsdíoxíð yfir heilsufarsmörkum

Í umsögninni segir Hollustuvernd m.a. að miðað við gefnar forsendur í matsskýrslu Reyðaráls muni starfsemi álversins uppfylla kröfur varðandi mengun utan þynningarsvæðisins. Hollustuvernd telur víst að hávaði frá starfsemi á iðnaðarsvæðinu við Hraun verði undir viðmiðunarmörkum í byggðinni í Reyðarfirði en "hugsanlegt er að til hennar heyrist". Líklegt er talið að hljóðstig í Framnesi, nærliggjandi bæ, verði yfir mörkum að nóttu til á byggingar- og rekstrartíma. Í umsögn Hollustuverndar segir enn fremur:

"Bent hefur verið á að verði ekkert gert eru sterkar líkur fyrir því að styrkur brennisteinsdíoxíðs í næsta nágrenni við álverið fari yfir heilsufarsmörk bæði fyrir 280 þúsund tonna álver og fyrir 420 þúsund tonna álver, ásamt meðfylgjandi rafskautaverksmiðju. Hollustuvernd ríkisins getur ekki fyrir sitt leyti fallist á slíkt enda er kveðið á um í frumdrögum að starfsleyfi að mengun skuli ætíð vera undir heilsufarsmörkum, jafnvel innan þynningarsvæðis. Stofnunin bendir á nokkra möguleika til að bæta þar úr og telur að slíkt verði auðvelt í framkvæmd en þarfnist þó undirbúnings. Stofnunin mun gera kröfu um að áður en endanlegt starfsleyfi verður afgreitt muni liggja fyrir útfærslur og útreikningar þar að lútandi."

Vandað rit að mati Veðurstofunnar og Byggðastofnunar

Hollustuvernd og Náttúruvernd gera flestar athugasemdir af þeim aðilum sem skilað hafa Skipulagsstofnun umsögn. Þannig telja Byggðastofnun og Veðurstofan matsskýrsluna vera vandað rit og ríkt af upplýsingum. Ekki verði annað séð en að vel hafi verið að verki staðið en Veðurstofan gerir þó nokkrar minniháttar athugasemdir við útblástur mengandi efna og mörk sem miðað er við. Þá bendir Byggðastofnun á að miklir óvissuþættir fylgi ætíð mati á samfélagslegum áhrifum framkvæmdar á borð við álverið. Brýnt sé að auka hagsýslugerð til að umhverfismat og áætlanagerð byggist á sem traustustum grunni.

Landgræðslan gagnrýnir í sinni umsögn að í matsskýrslunni hafi ekki verið vikið að hafnarframkvæmd við hlið álversins. Óeðlilegt hafi verið að aðgreina svo nátengdar framkvæmdir. En í öllum megindráttum telur Landgræðslan að skýrslan fullnægi eðlilegum kröfum varðandi gróður, jarðveg og rof af völdum fallvatna. Áhrif álversins á gróður og jarðveg verði ekki umtalsverð. Niðurstaða Landgræðslunnar er að fallist skuli á framkvæmdina en með þeim skilyrðum að gildi gróðursamfélagsins á framkvæmdasvæðinu verði metið og Reyðarál leggi fram áætlun um mótvægisaðgerðir áður en framkvæmdir hefjast.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands gerir athugasemd við losun PAH-efna frá álverinu og vill að leitað verði allra leiða til að halda í lágmarki því magni efnanna sem fer frá verksmiðjunni, t.d. með því að bæta vothreinsibúnaði og síun við þurrhreinsun frá rafskautaverksmiðjunni.

Veiðimálastjóri telur matsskýrsluna lýsa á fullnægjandi hátt áhrifum álversins á veiðihlunnindi varðandi ferskvatnsfiska en minnir á að stilla þurfi í hóf efnistekju við botn fjarðarins vegna hafnargerðar og byggingar álversins. Samráð þurfi að hafa um þau mál við eftirlitsfulltrúa Náttúruverndar ríkisins á svæðinu og/eða rannsóknaraðila hjá Veiðimálastofnun.

Stuðla má að aukinni skógrækt

Skógrækt ríkisins segir ekkert koma í veg fyrir það að Reyðarál sýni gott fordæmi og taki af sjálfsdáðum upp stefnu um mótvægisaðgerðir vegna aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Einn möguleikinn sé að stuðla að aukinni skógrækt og með rannsóknum sé hægt að þróa aðferðir til að auka kolefnisbindingu. Segist Skógræktin vera tilbúin til samstarfs um slíkar rannsóknir.

Þjóðminjasafnið leggst í umsögn sinni ekki gegn framkvæmdum á athafnasvæði fyrirhugaðs álvers en á svæðinu eru níu minjastaðir. Tveir staðir eru ekki taldir í hættu, þar sem þeir eru utan lóðar álversins, en safnið gerir kröfur um rannsókn á öllum hinum stöðunum. Bendir Þjóðminjasafnið á að þurfi að raska fornleifum eða rannsaka þær vegna framkvæmda verði að afla leyfis frá fornleifanefnd.

Engar athugasemdir eru gerðar í umsögnum Hafrannsóknastofnunar, Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Það er mat bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að matsskýrslan sé vel unnin og í henni komi fram allar þær upplýsingar sem þurfi til að taka ákvörðun um byggingu álversins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert