Búrfellsvirkjun stærri en Kárahnjúkar miðað við þjóðartekjur

Umfang Kárahnjúkavirkjunar fyrir Landsvirkjun og íslenska þjóðarbúið er hlutfallslega minna en Búrfellsvirkjun var á sínum tíma sé miðað við þjóðartekjur á hverjum tíma. Þetta kemur fram í yfirliti frá fjármáladeild Landsvirkjunar þar sem bornar eru saman tilteknar fjárfestingar Landsvirkjunar sem hlutfall af þjóðartekjum.

Fram kemur á Kárahnjúkavef Landsvirkjunar að virkjun við Kárahnjúka yrði ekki stærra virkjunarverkefni en t.d. Búrfell var á árunum 1966-1973, Sigalda á árunum 1974-1978 eða Hrauneyjafoss á árunum 1979-1983 í hlutfalli við þjóðartekjur en þjóðartekjur Íslendinga hafa aukist gríðarmikið á þessum tíma. Í yfirliti Landsvirkjunar kemur fram að umfang Búrfellsvirkjunar á árunum 1966 til 1973 var 14,7% af þjóðartekjum tímabilsins. Sigölduvirkjun á árunum 1974 til 1978 var 8,2% af þjóðartekjum tímabilsins og virkjun Hrauneyjafoss 1979 til 1983 var 10,4% af þjóðartekjum tímabilsins. Áætlað er að fyrsti áfangi Kárahnjúkavirkjunar árin 2002 til 2006: nemi 9,7% af þjóðartekjum tímabilsins og annar áfangi virkjunarinnar, árin 2007 til 2013 nemi 3,5% af þjóðartekjum tímabilsins. Þá er gert ráð fyrir að þjóðartekjur hækki um 2% á ári frá því sem þær eru árið 2000. Kárahnjúkavefurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert