Álver getur lifað í góðri sátt við umhverfið

Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri við Reyðarfjörð.
Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri við Reyðarfjörð.

"Álverið á að geta lifað í góðri sátt við umhverfi sitt á Austurlandi,“ sagði Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls hf., er hann kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar um mat á umhverfisáhrifum álversins í Reyðarfirði á blaðamannafundi í dag. Geir sagði að álver Reyðaráls verði tæknivæddara en eldri álver og munur á því og álverum Ísals og Norðuráls væri meðal annars sá að Reyðarál myndi einnig starfrækja rafskautasmiðju í stað þess að kaupa rafskaut frá öðrum aðilum.

Á fundinum gerði Geir ímynd álvera að umtalsefni og sagði að í hugum manna í dag virtist ímynd álvera byggjast á starfsemi eins og hún var fyrir 20 árum. Menn teldu störfin þar erfið, tæknivæðingu litla og starfsfólk ómenntað. Hann sagði nútímaálver mjög tæknivæddan vinnustað, starfsmenn menntaða, mengun væri takmörkuð, konur gætu leyst af hendi þar fjölda starfa og eins og í eldri álverum væru launakjör góð. Geir sagði að um 20% starfsmanna nútíma álvers vera með verkfræði-, tækni- eða viðskiptafræðimenntun, um 70% væri með margs konar fagmenntun, hefðu iðnnám eða fjölbrautanám að baki en um 10% væri ófaglært starfsfólk. Fjölbreytt störf
Stjórnarformaðurinn sagði að meðal samfélagsáhrifa á Austurlandi væri fjöldi nýrra starfa og að gæði þeirra yrðu meiri en almennt mætti segja um störf á Austurlandi í dag. Hann sagði álverið gjörbreyta vinnumarkaði þar og byði mjög fjölbreytt störf og regluleg allt árið. Hann sagði samfélagið á Austurlandi hafa átt í vanda undanfarin ár, m.a. vegna fólksflótta og árstíðabundinna starfa. Störf í álverinu væru ekki árstíðabundin og sagði hann tilkomu þess breyta forsendum byggðaþróunar á Austurlandi. Sigfús Jónsson, ráðgjafi hjá Nýsi, kynnti helstu atriði samfélagslegra áhrifa álversins en Nýsir tók saman ítarlega skýrslu um þau. Hann sagði einhæft atvinnulíf í samanburði við höfuðborgarsvæðið meðal veikleika Austurlands, hátt hlutfall láglaunastarfa og fá atvinnutækifæri fyrir menntað fólk. Fólki hefði fækkað um eitt þúsund á áratug og flytti einkum ungt fólk brott. Þá kemur fram í skýrslunni að samgöngur séu góðar, opinber þjónusta, félagsþjónusta og menningarlíf í góðu horfi. Einnig að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna sé góð. Fjölgar um tvö þúsund íbúa til ársins 2013
Við fyrri áfanga álvers árin 2002 til 2006 er talið þurfa um 2.000 ársverk og að um helmingur þeirra fari fram árið 2005 þegar framkvæmdir standa sem hæst. Þá mun Kárahnjúkavirkjun krefjast um 2.850 ársverka og bygging íbúðarhúsnæðis um 900 ársverka. Gert er ráð fyrir að heimamenn sinni um 15% ársverka við framkvæmdirnar og um 15% verði sinnt af starfsfólki sem flytjist tímabundið til Austurlands. Gert er ráð fyrir að um 30% ársverkanna verði sinnt af erlendu vinnuafli og um 40% af Íslendingum sem dvelja myndu í vinnubúðum á svæðinu. Þá er gert ráð fyrir nokkrum fjölda afleiddra starfa og miðað við þetta er talið að íbúum á Mið-Austurlandi fjölgi úr 8.100 eins og nú er í um 9.200 árið 2005. Þá er áætlað að íbúafjöldi á Mið-Austurlandi verði orðinn um 9.900 á árunum 2007-2008 og að frá 2001 til ársins 2013 verði heildarfjölgun íbúa kringum tvö þúsund manns. Sex vikna kynning
Skýrslan um umhverfismat álversins liggur frammi til kynningar næstu sex vikurnar á skrifstofum Fjarðabyggðar á Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði, á bókasafni Héraðsbúa á Egilsstöðum og í Reykjavík í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Kynningarfundir eru ráðgerðir 13. júní í Félagslundi á Reyðarfirði og 14. júní á Grand-hóteli í Reykjavík. Á fundinum á Reyðarfirði verður jafnframt kynnt skýrsla Fjarðabyggðar um mat umhverfisáhrifa hafnargerðarinnar við iðnaðarsvæðið á Hrauni. Að lokinni kynningu 6. júlí gefast fjórar vikur til athugasemda en getur orðið lengri tími ef framkvæmdaraðili telur sig þurfa lengri tíma til að bregðast við. Gerist það ekki fellur úrskurður Skipulagsstofnunar 3. ágúst og er kærufrestur til 31. ágúst. Berist kæra hefur umhverfisráðherra átta vikur til að úrskurða og í síðasta lagi á úrskurður því að liggja fyrir 26. október.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert