Unnið að framgangi Kárahnjúkavirkjunar og álveri á Reyðarfirði af fullri einurð

Valgerður Sverrisdóttir sagðist á málþingi um áhrif og þátttöku austfirskra fyrirtækja í starfsemi tengdri Kárahnjúkvirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði á Egilsstöðum í morgun, geta fullvissað fundarmenn um að samningsaðilar þessa mikla verkefnis ynnu af fullri einurð að framgangi þess og enn sem komið væri stæðust allar tímaáætlanir sem samið var um sl. vor.

Valgerður sagði að um þessar mundir væri unnið að gerð fjölmargra samninga um ýmsa þætti verkefnisins. Þar væri m.a um að ræða innri samninga milli fjárfesta, samninga um orku milli Reyðaráls og Landsvirkjunar og samninga milli Reyðaráls, stjórnvalda og Fjarðarbyggðar. Þegar meginefni samninga lægi fyrir - sem væntanlega yrði á næstu vikum – gæti Reyðarál farið að leita tilboða í fjármögnun álversbyggingarinnar. Ennfremur sagði Valgerður að þegar byggingartíma lyki og starfsemi hæfist í álverinu kallaði það á aukin umsvif á Austurlandi í þjónustu og annarri starfsemi sem tengdist álverinu. Komið hafi fram að stefna Reyðaráls væri að kaupa sem mest þjónustu í stað þess að byggja hana upp innan veggja fyrirtækisins. Atvinnulífið mætti því ekki um of einblína á sjálfan uppbyggingartímann heldur þyrfti jafnframt að huga að því hvernig hægt yrði að laga atvinnulífið að þeim aðstæðum sem myndu skapast eftir að starfsemi álversins hæfist. „Ég er sannfærð um að starfsemi álversins mun breikka verulega grundvöllinn fyrir austfirskt atvinnulíf og fjölga þannig atvinnutækifærum íbúanna. Það mun leiða til þess að fólk flytji á svæðið og unga fólkið fær tækifæri til að snúa heim að loknu námi," sagði Valgerður. Áætlað er að heildarfjárfesting vegna byggingar álversins geti numið um 80-85 milljörðum króna. Ársverk við byggingu álversins eru áætluð um 2.000 með um 1.400 manns starfandi á byggingarstað þegar mest verður. Framkvæmdir við álverið verða á árabilinu á árabilinu 2003 til 2006. Auk þess er gert ráð fyrir að bygging hafnar við álverið kosti um milljarð og 1,5 milljarð kosti að gera lóðina undir álverið byggingarhæfa. Þá hefur verið ákveðið að bæta vegi í Fjarðarbyggð fyrir um 400 milljónr. Vegur þar þyngst endurbygging vegarins á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert