Ungir og brottfluttir Austfirðingar almennt hlynntir álveri

Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði.
Tölvumynd af fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði.

Ungt fólk á Austurlandi er almennt hlynnt byggingu álvers við Reyðarfjörð og telur að það styrki efnahagslega stöðu byggðalagsins og dragi úr brottflutningi og leiði almennt til betra mannlífs, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Reyðarál hf. á afstöðu þessa hóps til álvers. Þá er meirihluti brottfluttra Austfirðinga hlynntur byggingu álvers í Reyðarfirði og telur að það muni styrkja mjög byggð og atvinnulíf á Austurlandi. Töluverður vilji virðist til þess hjá brottfluttum Austfirðingum, einkum yngra fólki, að flytja aftur austur ef fleiri og betri störf skapast.

Reyðarál lét kanna viðhorf til álvers í Reyðarfirði meðal ungs fólks á Austfjörðum á aldrinum 18-28 ára, og brottfluttra Austfirðinga á aldrinum 20-49 ára sem flutti frá Austurlandi á árunum 1995-1999. Samkvæmt tilkynningu frá Reyðaráli sagðist ríflega helmingur þeirra sem svöruðu í hópi unga fólksins, eða 56%, vera mjög hlynntur byggingu álvers við Reyðarfjörð og þrír af hverjum fjórum svarendum eru mjög eða frekar hlynntir byggingu álversins. Þá töldu 87% svarenda að bygging álvers myndi styrkja efnahagslega stöðu byggðalagsins mjög eða frekar mikið og um 59% svarenda töldu að laun muni hækka á Austurlandi með tilkomu álversins en um 40% töldu að þau haldist svipuð. Þá töldu um 82% svarenda að brottflutningur frá Austurlandi eigi eftir að minnka með tilkomu álvers og þrír af hverjum fjórum töldu að álverið eigi eftir að leiða til mun eða nokkuð betra mannlífs. Ungir karlar hafa frekar áhuga en konur á vinnu í nýju álveri og ungt fólk í Fjarðabyggð og á Suðurfjörðum hefur mun meiri áhuga á að starfa þar en t.d. ungt fólk á Fljótsdalshéraði. Fram kom að um 68% svarenda hefur hugleitt á sl. 2 árum að flytja frá Austurlandi og þá frekar einhleypt fólk og námsmenn. Þegar spurt var um búsetu eftir 10 ár sögðust 43% ætla sér að búa á Austurlandi en 57% annars staðar. Hins vegar töldu um 90% þeirra sem sögðust ætla að búa annars staðar en á Austurlandi eftir 10 ár, að fleiri og betri atvinnutækifæri myndu auka líkur á búsetu þeirra á Austurlandi. Könnunin leiddi í ljós að ungir Austfirðingar eru frekar óánægðir með atvinnuástand í sínu byggðalagi en nokkur ánægja er með atvinnuöryggi. Talsverð óánægja er vegna vöruúrvals og mikil vegna vöruverðs í verslunum eystra. Ungir Austfirðingar eru sáttari við framboð á húsnæði á Austurlandi og tækifæri til náms eftir grunnskóla og ríflega helmingur svarenda er frekar eða mjög ánægður með möguleika til útivistar og tómstundastarfs í sínu byggðalagi. Í hópi brottfluttra Austfirðinga sögðust um 17% aðspurðra telja mjög eða frekar líklegt að þeir flyttu austur ef álver rís við Reyðarfjörð en 49% telja það mjög eða frekar ólíklegt. Um 70% þeirra sem töldu ólíklegt að þeir byggju á Austurlandi eftir 10 ár sögðu að þeir myndu hugleiða að flytja aftur austur ef fleiri og betri atvinnutækifæri sköpuðust þar. Töluverður munur er á þessari afstöðu eftir aldri, því fólk á aldrinum 20-29 ára (80%) og 30-39 ára (37%) er mun tilbúnara að hugleiða að flytja en fólk á aldrinum 40-49 ára (27%). Þá kom fram í könnuninni að um 38% aðspurðra telja að mjög eða frekar margir Austfirðingar eigi eftir að flytja til baka á heimaslóðir ef álverið verður byggt en 29% telja að mjög eða frekar fáir eigi eftir að flytja til baka þó álverið rísi.Í tilkynningu frá Reyðaráli segir að brottfluttir Austfirðingar séu almennt jákvæðir í garð stóriðju og um 79% telji að bygging álvers muni styrkja byggð og atvinnulíf í fjórðungnum mjög eða frekar mikið en einungis 10% telja að lítill ávinningur verði af álverinu fyrir byggð og atvinnulíf. Þá eru 66% frekar eða mjög hlynnt álverinu en um 23% frekar eða mjög andvíg. Og heldur fleiri karlar (69%) eru hlynntir byggingu álvers en konur (63%). Brottfluttir Austfirðingar nefndu einkum lakar atvinnuaðstæður og tekjuöflunarmöguleika sem ástæður fyrir flutningi frá Austurlandi. Þá er óánægja manna töluverð með tækifæri til náms eftir grunnskóla sem og vöruúrval og vöruverð eystra miðað við núverandi heimabyggð en hins vegar var um helmingur aðspurðra mjög eða frekar ánægðir með framboð hentugs húsnæðis á Austurlandi. Þá voru menn almennt ánægðir með möguleika til útvistar og tómstundastarfs á Austurlandi. Könnun Félagsvísindastofnunar um viðhorf brottfluttra Austfirðinga var gerð í nóvember og desember sl. Send var póstkönnun til 500 manna úrtaks fólks á aldrinum 20-49 ára sem flutti frá Austurlandi á árunum 1995-1999. Svarhlutfallið var um 48% og kynjaskipting svarenda svo til jöfn. Könnun á viðhorfi ungra Austfirðinga var gerð í nóvember og desember sl og náði til ungs fólks á aldrinum 18-28 ára með lögheimili á svæðinu frá Fljótsdalshéraði til Breiðdalsvíkur. Af þeim 364 sem voru í úrtakinu svöruðu 203, eða 56%. Kynjaskipting var nokkuð jöfn, 55% konur og 45% karlar, og var meðalaldur svarenda rúm 22 ár. 41% eru í námi, 59% stunda vinnu, rúmlega 44% eru einhleypir, um 39% giftir eða í sambúð og um 17% á föstu án þess að vera í sambúð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert