Stækkun getur haft áhrif á byggðaþróun í landinu

Fimm athugasemdir bárust vegna draga að tillögu að mats- áætlun vegna stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga í allt að 300 þúsund tonn, en frestur til þess að skila inn athugasemdum rann út á laugardag. Skipulagsstjóra verður send matsáætlunin í dag.

Þeir sem gerðu athugasemd við matsáætlunina voru Samtökin SÓL í Hvalfirði, Landgræðsla ríkisins, Byggðastofnun, Veðurstofan og Sigurjón Guðmundsson og fjölskylda að Bjarteyjarsandi á Hvalfjarðarströnd.

Í athugasemd frá SÓL er lýst yfir sterkri andstöðu við stækkun álversins og allar þær framkvæmdir sem tengjast henni, t.d. virkjanir, vegi og lagningu háspennulína. Vilja samtökin að stækkunin og allt sem henni fylgir verði metið saman og í einu lagi, en ekki sitt í hverju lagi eins og stefnt er að.

SÓL í Hvalfirði benda á að drög að starfsleyfi fyrir 300 þúsund tonna álveri verði að liggja fyrir þegar frummatsskýrslan verður lögð fram. Í starfsleyfi sé álverksmiðjunni settur nánari rammi um starfstilhögun og viðmiðunarmörk og þessar upplýsingar verði að liggja fyrir þegar frummatsskýrslan verði lögð fram. Ítreka samtökin kröfur sínar um vothreinsibúnað og segja að það sé óábyrgt og með öllu óviðunandi að gera ekki ráð fyrir slíkum búnaði við stækkunina. Þá er þess krafist að í matsskýrslunni komi fram áætlun um ábyrga förgun kerbrotanna.

Aukin losun gróður- húsalofttegunda

Í greinargerð sem fylgir athugasemd SÓL er fjallað um losun gróðurhúsalofttegunda og kemur þar fram að 300 þúsund tonna álver komi til með að losa 440 þúsund tonn á ári af CO2, en það sé 20% aukning á losun Íslendinga, miðað við losun árið 1990. Samkvæmt Kyoto-bókuninni sé losunarheimild Íslendinga losun ársins 1990 að viðbættum 10% og því sé um aukningu umfram þau viðmið að ræða. Gagnrýna samtökin að ekki komi fram í tillögunum hvernig vega eigi á móti hinni auknu losun og áætlun um slíkt auk kostnaðarmats verði að koma fram í matsskýrslu.

Þá segja samtökin óviðunandi að fara út í umfangsmeiri stóriðju á Grundartanga án þess að liggi fyrir hvaða áhrif núverandi stóriðja hafi haft á lífríki fjarðarins.

Í athugasemd frá þróunarsviði Byggðastofnunar er lögð áhersla á að gerð verði heildstæð könnun á samfélagsbreytingum þeim sem leiða af stækkun álversins, bæði þáttum sem tengjast vinnumarkaði og félagslegum þáttum. Auk þess segir þar að nauðsynlegt sé að meta áhrif stækkunar á byggðaþróun og stöðu fyrirtækja á landsbyggðinni í samkeppni um sérhæft vinnuafl.

Kanna þarf áhrif á íbúaþróun landsbyggðarinnar

Byggðastofnun bendir á að eftirspurn eftir vinnuafli sé mikil á höfðuðborgarsvæðinu meðan talað sé um fækkun starfa á landsbyggðinni. Vegna nálægðar sinnar við höfuðborgarsvæðið megi telja Grundartanga til atvinnusvæðis þess og ljóst virðist að mannafli við Norðurál verði að miklu leyti sóttur til höfuðborgarsvæðisins og nágrannasveitarfélaganna, en að líkindum einnig að einhverju leyti til landsbyggðarinnar. Því geti stækkun álversins haft áhrif á byggðaþróun landsins í heild sinni. Af þeim orsökum sé nauðsynlegt að athugunin taki til þess hvaðan vinnuaflið er sótt og hvaða áhrif það muni hafa á íbúaþróun landsbyggðarinnar.

"Ljóst er að álverið muni að einhverju leyti keppa við önnur fyrirtæki um sérhæft vinnuafl, bæði í nágrenni sínu og utan þess, þ.m.t. fyrirtæki starfandi á landsbyggðinni. Laun eru almennt hærri á höfuðborgarsvæðinu, og auðveldara er fyrir maka starfsfólks að fá vinnu við sitt hæfi. Ef fyrirtæki nálægt höfuðborgarsvæðinu býður sérhæfðu starfsfólki hærri laun en bjóðast á landsbyggðinni, getur það haft neikvæð áhrif á framboð á sérhæfðu vinnuafli við fyrirtæki á landsbyggðinni. Einnig mun álver á Grundartanga verða í samkeppni um vinnuafl við fyrirhugað álver á Reyðarfirði. Athuga þarf hvaða áhrif stækkun álversins á Grundartanga hefur á þörf þess fyrir sérhæft vinnuafl, hvaðan líklegt er að það vinnuafl verði sótt og hvaða áhrif það muni hafa á samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni um sérhæft vinnuafl," segir ennfremur í erindi Byggðastofnunar.

Tímaáætlun sögð of þröng

Í athugasemdum Veðurstofu Íslands er sett fram sú skoðun að tímaáætlun sé of þröng, auk þess sem sjálfsagt sé að gera ráð fyrir vothreinsibúnaði til að minnka útblástur af brennisteinstvíoxíði, ekki síst þar sem álverið standi við hliðina á öðru stóriðjufyrirtæki, járnblendiverksmiðjunni. Aukinheldur er lagt til að kafli um náttúruvá af völdum jarðskjálfta sé endurskoðaður og þess getið að umhverfis iðnaðarsvæðið á Grundartanga séu nokkur svæði þar sem stærstu jarðskjálftar geti orðið af stærðargráðunni 5 til 6 á Richter, enda þótt svæðið sjálft sé utan þekktra upptakasvæða jarðskjálfta.

Landgræðsla ríkisins minnir á að það sé stefna Landgræðslunnar að landspjöll skuli bæta að fullu og því verði að geta þess í matsáætlun hvernig land það sem raskast verður metið og hvað teljist fullnægjandi bætur. Þá er bent á að við þessa framleiðsluaukningu muni mikið magn gróðurhúsalofttegunda verða til og því sé eðlilegt að gera grein fyrir í matsáætlun þeim mótvægisaðgerðum sem stefnt sé að vegna þessarar losunar.

Í greinargerð frá Sigurjóni Guðmundssyni og fjölskyldu, koma fram áhyggjur af því að aukin umsvif stóriðju á Grundartanga hafi neikvæð áhrif á landbúnað í nágrenninu og sauðfjárbúskap. Bent er á að á þessu ári hafi verið samþykktur nýr samningur um framleiðslu sauðfjárafurða þar sem rauði þráðurinn sé vottun og gæðastýring.

"Íslenskt lambakjöt hefur ákveðna sérstöðu hvað varðar hreinleika þess. Þegar fjallað er um hreinleika matvæla er vísað til þess að mengandi efni séu í lágmarki. Við höfum verulegar áhyggjur af því að aukin mengun frá stærra iðnaðarsvæði geti haft áhrif á kindakjötsframleiðslu okkar. Auk þess er nú í undirbúningi að hefja vistvæna framleiðslu á kindakjöti á Bjarteyjarsandi. Vistvæn framleiðsla skapar að okkar mati mikla sérstöðu landbúnaðarafurða, sé litið út fyrir landsteinana. Við teljum að þessu sóknarfæri okkar sé ógnað með því að auka útblástur mengandi efna á svæðinu, sem jafnframt er gott landbúnaðarland. Erfiðir tímar hafa nú verið í landbúnaði almennt og við teljum að okkar sterkasta vopn í baráttunni sé hreinleiki afurðanna. Með aukinni mengun á svæðinu teljum við að verið sé að veikja stöðu okkar í þessu sambandi. Hugsanlegt er að landkostir rýrni og þar með grundvöllur aðalatvinnugreinar okkar," segir í greinargerðinni.

Rafmagnslínur lýti í landslaginu

Ennfremur kemur fram, að stóriðja hafi haft neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu í nágrenninu, en 29 sumarbústaðalóðir hafi verið skipulagðar í landi Bjarteyjarsands. Þess séu dæmi að fólkið hafi horfið frá, eingöngu vegna nálægðar við stóriðjuna. Einnig er bent á að rafmagnslínur sem þurfi vegna stækkunarinnar verði lýti í landslaginu og séu almennt illa séðar í nágrenni við sumarbústaðabyggðir, en fjölskyldan telji miklar líkur á að Hvalfjörðurinn geti orðið vinsælt sumarbústaðaland í framtíðinni.

Að lokum er bent á að Bjarteyjarsandur sé meðal þeirra bæja sem nú stunda tilraunarækt á kræklingaeldi og slíkt eldi sé mjög viðkvæmt fyrir mengun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert