60 þúsund tonna skip munu geta lagst að bryggju

Tillaga að matsáætlun vegna framkvæmda við hafnarmannvirki á iðnaðarlóð við Hraun í Reyðarfirði vegna fyrirhugaðrar byggingar álvers, hefur verið birt og er unnt að gera við hana athugasemdir til 6. desember nk.

Hafnargarðurinn verður 260 metrar að lengd í fyrsta áfanga en í öðrum áfanga er gert ráð fyrir að hann verði lengdur um 120 m. Höfnin verður um 14 m að dýpt en hún mun geta tekið á móti skipum með allt að 60.000 dwt í burðargetu. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist snemma vors 2003.

Áætlað er að hafnarmannvirkin verði byggð á um 20 mánuðum. Kostnaður vegna fyrsta áfanga við hafnargerðina er áætlaður um 800 milljónir króna en við annan áfangann um 300 milljónir króna.

Það er Hafnarsjóður Fjarðabyggðar sem stendur að framkvæmdunum, en auk þess að þjóna fyrirhuguðu álveri er ætlunin að laða að aðra hafnsækna starfsemi til svæðisins.

Hönnun hf. er ráðgjafi við mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna en tillaga að matsáætlun fyrir höfnina er nú til kynningar á vef fyrirtækisins (honnun.is).

Í tillögu að matsáætlun er fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir, framkvæmdasvæði, umhverfisþætti, kynningu og samráð í matsvinnunni.

Gert er ráð fyrir að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum verði send til Skipulagsstofnunar í lok febrúar 2001 og að úrskurður stofnunarinnar verði birtur í lok maí 2001.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert