Ráðherra segir ekkert hik á mönnum

ÁÆTLAÐ er að samanlagðar fjárfestingar Landsvirkjunar og Reyðaráls vegna Noral-verkefnisins verði allt að 30 milljarðar kr. á ári á tímabilinu 2003-2008 og að um 40% fjárfestinganna verði af innlendum uppruna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Þjóðhagsstofnunar um áhrif virkjunar og álvers á íslenskt efnahagslíf sem var m.a. til umræðu á fundum Egils Myklebust, aðalforstjóra Norsk Hydro, og tveggja háttsettra fulltrúa fyrirtækisins með stjórnvöldum í gær.

Myklebust kom hingað til lands í gærmorgun ásamt þeim Eyvind Reiten, forstjóra álsviðs Hydro, og Jostein Flo, yfirmanns Íslandsverkefna fyrirtækisins. Áttu þeir fund með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gærmorgun, en hittu einnig fulltrúa íslenskra fjárfesta í Hæfi að máli, auk þess sem þeir áttu fundi með Landsvirkjun, aðilum vinnumarkaðarins og fleirum.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði að um mjög góðar og upplýsandi viðræður hafi verið að ræða.

"Það er mikilvægt að svo háttsettir fulltrúar Norsk Hydro komi hingað til lands og ræði málin við okkur," sagði Davíð. "Á fundinum var farið vítt og breitt yfir stöðu mála og báðir aðilar gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum," sagði hann.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði að ekkert hik væri á mönnum varðandi áform um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði, unnið væri samkvæmt áætlun og stefnt væri að lokaákvörðun eins og áður árið 2002.

Egil Myklebust sagði við Morgunblaðið að sér hefði þótt nauðsynlegt að koma sjálfur hingað til lands og fá þannig tilfinningu fyrir Noral-verkefninu.

"Ég hef fylgst með þessu máli frá upphafi, en ekki áður átt beinan þátt í viðræðum. Nú hef ég fengið tækifæri til að kynnast sjónarmiðum íslenskra aðila og verð að segja að ég er mjög ánægður. Þetta hefur verið annasamur og góður dagur, allir málsaðilar skilja þau miklu tækifæri sem felast í þessu verkefni og um leið áskoranir."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert